141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[15:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna því að þetta mál er komið til 1. umr. og mun án nokkurs vafa hljóta skjóta og örugga meðferð í þingnefnd og úrvinnslu á Alþingi. Þetta er mjög vel unnið mál eins og kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra. Það hefur komið mjög skýrt fram í umræðu í dag og undanfarna daga að það hefur verið unnið mjög vel að málefnum sem snerta kynferðisbrot, sérstaklega gagnvart börnum og ungmennum, á síðustu árum. Lagaramminn allur hefur tekið miklum stakkaskiptum til hins betra og ráðuneytið staðið mjög vel að þessum málum í hvívetna, held ég að óhætt sé að fullyrða.

Þetta mál er afrakstur af góðri vinnu og tekur á mikilvægum atriðum sem varða hegningarlögin, samræmingu þar og refsiramma og ýmislegt annað eins og ráðherrann rakti áðan og mun bæta enn lagarammann íslenska er snýr að kynferðisbrotum.

Það er ástæða til að nefna í þessari umræðu að í framhaldi af þeirri miklu umræðu sem verið hefur um kynferðisbrot barnaníðinga og öll þessi hörmungarmál í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum og Kastljósi í síðustu viku héldum við fund í allsherjar- og menntamálanefnd í morgun þar sem við kölluðum til marga af þeim aðilum sem hafa með þessi mál að gera, Barnaverndarstofu, innanríkisráðuneyti, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, Stígamót, ríkissaksóknara og fræðimann úr Háskólanum í Reykjavík, Svölu Ólafsdóttur, sem hefur unnið feikilega merkilega rannsóknarvinnu í þessum málum. Við gerum okkur grein fyrir því hvernig þessi mál standa gagnvart framkvæmdarvaldinu og löggjafanum. Það er hægt að fullyrða að það hafi komið fram hjá öllum sem voru á þessum fundi að lagaramminn væri meira og minna með ágætum á Íslandi og að mörgu leyti stæði Ísland í samanburði þjóðanna jafnfætis þeim sem fremst eru í flokki í þessum málum almennt. Auðvitað eru samt alltaf uppi álitaefni fyrir okkur til að skoða. Meðal þess sem var mikið rætt í morgun voru heimildir lögreglu til forvirkra aðgerða eins og með tálbeitur á netinu þar sem þessi farvegur brotanna er að færast í mjög miklum mæli inn á netið, nú og á næstu árum. Þess vegna þarf til dæmis að bregðast við því. Það er álitaefni sem er ekkert sjálfsagt, en hins vegar sjálfsagt að skoða. Í máli flestra fundargesta í morgun kom fram að slíkar forvirkar heimildir skipta ekki minnstu máli upp á fælingarmáttinn sem þær hafa í för með sér.

Þá var rætt um sakaskrár þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot. Þau falla út af vottorðinu þegar fólk sækir um vinnu í framtíðinni. Það er ekkert stórmál að breyta fyrirkomulagi enda fellur brotið ekki út af sakaskránni heldur bara vottorðinu. Þegar fólk sækir um tiltekin störf ættu að fylgja á vottorðinu upplýsingar um dóma í kynferðisbrotamálum gagnvart börnum og ungmennum. Ríkissaksóknari útskýrði það nokkuð vel á fundinum í morgun.

Það kom fram að starfsemi Barnahúss og Barnaverndarstofu væri með miklum ágætum og að í sjálfu sér þyrfti ekki að grípa til neinna róttækra eða stórbrotinna lagabreytinga. Auðvitað mætti ýmislegt laga í ferlinu.

Svala Ólafsdóttir nefndi sérstaklega hjálparlínu fyrir fólk með þessar hroðalegu hvatir sem það gæti leitað aðstoðar við áður en það bryti af sér. Að sjálfsögðu er önnur slík hjálparlína með stuðningi við þá sem brotið hefur verið á.

Þá velti fræðimaður því upp hvort til staðar ætti að vera miðlægur gagnagrunnur með nöfnum dæmdra, og jafnvel þeirra sem bornir hafa verið staðfestum sökum þótt brot hafi verið fyrnd. Ýmsu var þarna velt upp og mikið rætt, eins og ég sagði, um það hvort lögreglan ætti að hafa óskoraða heimild til að hafa frumkvæði að tálbeitunotkun á netinu o.s.frv. Allt eru þetta mál sem fara að sjálfsögðu í skoðun og eru í skoðun í framhaldinu.

Á fundinum kom fram að almennt hefur náðst mikill árangur á síðustu árum í þessum málum. Auðvitað eru alltaf til staðar gloppur sem er sjálfsagt að skoða og nauðsynlegt er að fylgjast í sífellu með þeim. Viðbrögð framkvæmdarvaldsins við umfjölluninni í síðustu viku voru mjög yfirveguð, hófstillt og jákvæð þar sem settur var niður sérstakur sérfræðingahópur nokkurra ráðuneyta til að fara yfir þessi mál, skoða hvort ganga þurfi lengra á einhverjum sviðum hvað varðar eftirlit með dæmdum barnaníðingum, raunhæfar aðgerðir í því og hvað varðar eftirfylgnina alla, þá sérstaklega það sem snýr að meðferðarþættinum.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði að mjög margir af þeim sem brjóta af sér á þessu sviði byrjuðu á því mjög ungir, nánast sem börn og unglingar, oft aðilar sem hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi sjálfir. Því fyrr sem er hægt að grípa inn í ferlið, því meiri árangur næst í meðferðinni til að uppræta eða eyða þessum hvötum. Eins hvað varðar meðferð í fangelsunum á dæmdum kynferðisafbrotamönnum, þetta skiptir allt miklu máli þótt það hafi verið ítrekað líka að aldrei megi veita falskt öryggi hvað varðar þá sem hafa verið dæmdir með til dæmis barnagirnd á hæsta stigi.

Mörg mál eru til skoðunar nú þegar milli ráðuneytanna og hjá okkur í allsherjar- og menntamálanefnd. Við munum fjalla um þetta áfram á næstunni, enda tilefni til sífelldrar endurskoðunar á þessum málum. Þá má geta þess að auðvitað var mikill áfangi fyrir sex árum þegar fyrningin á alvarlegum kynferðisbrotum gagnvart börnum og ungmennum var afnumin. Þau fyrnast ekki og það skiptir mjög miklu máli. Það sem er oft erfiðast er að fá börn til að koma fram og segja frá þessu. Mjög margir gera það ekki fyrr en þeir eru komnir á fullorðinsár. Þetta er eitt af því sem þarf að vinna að og breyta, hvernig megi auðvelda börnum og ungmennum sem brotið er á að koma fram og segja frá þessum hroðalegu brotum og sálarmorðum sem þarna eru framin. Umfram allt þarf þetta að vera hófstillt og yfirveguð vinna sem hún er.

Ég vil hrósa Alþingi og ríkisstjórn og ráðherrum sem að þessu koma fyrir fumlaus og ákveðin vinnubrögð og ráðuneytinu fyrir þetta mál sem við erum að ræða hérna í dag. Það gefur góðar væntingar um vinnuna fram undan í því sem þarf að bregðast við eða bæta úr, svo sem umræddar og umdeildar heimildir lögreglu, rýmkaðar eða auknar til forvarnastarfs. Það er engan veginn sjálfsagt mál.

Stefán Eiríksson velti því upp á fundinum í morgun hvort ekki mætti líta á það sem réttlætanlegt í svo alvarlegum málaflokki, og honum einum og engum öðrum, að nota svo róttækar aðferðir sem tálbeitur. Þar er auðvitað verið að lokka viðkomandi til að brjóta af sér. Það er ekkert sjálfsagt mál og þarf að skoða og íhuga mjög. Ég hallast að því að það sé úrræði sem geti orðið gagnlegt að lögreglan hafi í auknum mæli, hún hefur það upp að vissu marki, hún má ganga inn í samskipti sem eru til staðar milli barns og mögulegs geranda, yfirtaka þau og leiða til enda og ná viðkomandi. Það er spurning um frumkvæðisheimildina til að beita slíkum úrræðum. Þar getur fælingarmátturinn skipt mjög miklu máli. Það eitt að lögreglan hafi heimild til að nota slíkt, og fari auðvitað mjög varlega með, getur haft mjög mikinn fælingarmátt á þá sem eru haldnir þessum hörmungarhvötum til að misnota internetið og þann galopna aðgang sem þar er að mörgum börnum, og unglingum líka, til þessara óhæfuverka.