141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna þessu frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra. Í grunninn er þetta gert vegna vinsamlegra tilmæla af hálfu nefndarinnar sem skilaði samhljóða áliti á síðasta þingi um þau mál er snerta misnotkun á börnum, ekki síst hvað varðar þann mun á refsingu er tengist misbeitingu á börnum sem brotamaður þekkir og er í trúnaðarsambandi við eða þeim sem hann hefur ekki þekkt. Það var sérstaklega munur á refsiramma slíkra brota sem nefndin taldi meðal annars rétt að farið yrði yfir. Það var gert, m.a. af hálfu refsiréttarnefndar, og ber að fagna því.

Það er erfitt að byrja að ræða um þessi mál öðruvísi en að huga að því, eins og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar kom inn á í sinni ræðu, sem varðar fund nefndarinnar í morgun. Það er fyrsti fundur af nokkrum. Málið sem tengist þeirri umræðu er snertir þessi hræðilegu brot gagnvart börnunum okkar í samfélaginu er umfangsmikið. Krafa barnanna heyrist kannski ekki hátt en er auðvitað sú að búa í samfélagi sem veitir þeim réttarvernd, öryggiskennd og hlýju þannig að þau geti óhikað tekið á hugsanlegri illsku í þeirra garð.

Við í nefndinni erum að reyna að fara yfir þetta á málefnalegan og að mínu mati faglegan hátt. Við erum að reyna að skoða þessa stóru mynd sem skiptir okkur máli, ekki bara mynd sem snertir beinharða löggjöf og tilheyrir ramma löggjafarvaldsins heldur ekki síður það sem er hitt hlutverk löggjafarvaldsins, að veita bæði framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslunni aðhald og sjá hvað við getum betur gert með því að tala við fagaðila úti í samfélaginu. Við þurfum líka að koma með ábendingar til þeirra sem málið heyrir undir í stjórnsýslunni. Þess vegna var þessi fundur í morgun afar gagnlegur. Margt kom þar fram, m.a. að margt hefur verið gert á umliðnum árum. Réttarstaða barna í dag er allt önnur en hún var fyrir 30, 40 árum þegar þöggunin í samfélaginu gagnvart slíkum málum var hvað mest.

Um leið og við viljum gera allt og eigum að gera allt til þess að gæta réttinda barna, gæta þess að þau eigi þennan rétt til þess að lifa því lífi sem þau kjósa og veita þeim lífshamingju og tækifæri sem samfélagið reynir alla jafna að móta og búa til fyrir einstaklinga, verðum við líka að skoða hinn endann á réttlætisvoginni sem er að gæta að réttarreglum þess réttarríkis sem við Íslendingar höfum búið við. Það er einmitt á svona stundu sem reynir hvað mest á grundvallarreglur réttarríkisins sem við sem störfum hér á þingi sem og aðrir í samfélaginu sem vinna að þessum málum verðum að reyna að nálgast málið yfirvegað þannig að við komumst til botns í því og komumst að þeirri niðurstöðu sem verður til farsældar fyrir börnin okkar og samfélagið í heild.

Eins og einn orðaði það í morgun er ekkert endilega rosalega þægilegt að tala máli þeirra sem flokkast undir brotamenn í þessum brotaflokki en eins og aðrir sakborningar eiga þeir sinn rétt.

Að því sögðu verðum við líka að skoða þann nýja veruleika sem við búum við. Menn tala um nýja tækni. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kom inn á það og þekkir netheima vel, mun betur en sú sem hér stendur, að það er alveg rétt að menn eiga kannski ekki bara að tala um netheima. Þeir eru hluti af veruleikanum. Ég held að það skipti okkur máli að nálgast hlutina með þeim hætti og reyna að afla bestu þekkingar og vitneskju um það hvernig hægt er að nálgast þann ósóma sem tengist netinu og kastar rýrð á notkun allra þeirra sem haga sér alla jafna sómasamlega á netinu.

Við verðum að huga að því sem Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, benti á í athugasemdum sínum. Hann kom inn á það að vissulega hefur lögreglan heimild varðandi tálbeiturnar. Lögreglan hefur ekki heimild til að vera sú virka tálbeita sem Stefán Eiríksson kallaði í raun eftir, eingöngu í þessum brotaflokki. Ég held að þetta sé hluti af því sem við í nefndinni þurfum að fara betur yfir. Við þurfum að kalla líka til þá menn sem alla jafna eru réttargæslumenn og standa í fyrirsvari fyrir kynferðisbrotamenn og fyrir alla brotamenn í samfélaginu, það eru einna helst lögmenn. Við þurfum að kalla til lögmannafélagið. Við þurfum að kalla til refsiréttar- og réttarfarsnefnd, en við þurfum að mínu mati fyrst og síðast að kalla til þá sem þetta mál snertir. Þeir komu meðal annars á fund nefndarinnar í dag, en svo eru fleiri sem þekkja til málsins. Hér hefur verið kallað eftir Drekaslóð. Það hefur líka verið kallað eftir, hef gert það sjálf, þeim sem koma beint og óbeint að rekstri og viðgangi æskulýðsfélaga, íþróttafélaga og ekki síst skólastarfseminnar. Sú leiðsögn sem skólinn veitir alla jafna er eitt besta tækið til þess að nálgast börnin okkar með ákveðin skilaboð til að auka þeim sjálfstraust, veita þeim það öryggi sem þau þurfa til að stíga fram í erfiðum málum.

Við eigum að nota vel þau samfélagstæki sem til staðar eru. Þess vegna held ég að sá vettvangur sem allsherjar- og menntamálanefnd er, þar sem við sameinum þessa málaflokka, menntamálin, æskulýðsmálin og íþróttamálin, forvarnamálin, en líka löggæsluna, réttarkerfið og refsivörsluna, er það að mínu mati einstakt tækifæri til að fara málefnalega yfir þennan mikilvæga málaflokk þannig að við getum skilað tillögum sem verða vonandi til eflingar og batnaðar og eru viðleitni til að koma í veg fyrir að svona hlutir gerist í jafnríkum mæli og virðist hafa verið í áraraðir.

Að þessu sögðu vil ég undirstrika að það er að mínu mati samstaða innan nefndarinnar um að vinna þetta æsingalaust þó að tilfinningarnar séu heitar og þetta séu mál sem snerti strengi í hjörtum og brjóstum allra þeirra sem að þessum málum koma. Eftir stendur ábyrgðin á okkur að gera þetta þannig að við förum ekki gegn þeim grundvallarprinsippum sem við alla jafna viljum að þetta samfélag byggi á.

Þetta vildi ég sagt hafa í tengslum við málið sem við ræðum. Við munum náttúrlega taka þetta mál sem hæstv. innanríkisráðherra leggur fyrir okkur á þingi og fara vel yfir það. Það er í megindráttum að mínu mati í anda þess sem við bentum á í nefndinni á sínum tíma og ég kom inn á áðan. Ég geri ekki ráð fyrir að við förum í stórfelldar breytingar með öllum þeim fyrirvörum sem það snertir um þau atriði sem upp kunna að koma við efnisyfirferð í málinu í nefndinni.

Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa lagt frumvarpið fram.