141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hún sagði eiginlega allt sem ég hefði viljað sagt hafa. Ég er mjög fegin því að innan nefndarinnar er mikil samstaða um að vinna þetta mál af yfirvegun. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli, sérstaklega fyrir börnin í landinu.

Það eru nokkur atriði sem mig langaði aðeins að koma inn á. Það skiptir svo miklu máli því að í raun og veru er lagaramminn okkar mjög góður og ég var mjög ánægð að heyra það. Ég er mjög ánægð með þá viðbót við lagarammann sem tekin er fyrir í þessari lagabreytingu. En það er ekki síður mikilvægt að foreldrar kenni börnunum sínum í góðu samstarfi við skóla að greina á milli raunverulegra vina og þeirra sem eru þeim hættulegir. Ég á 12 ára gamlan son og lagalega séð má hann fá aðgang að facebook. Þar eru hin fullkomnu verkfæri fyrir þá sem haldnir eru barnagirnd til að búa til mjög geðfelldar persónur á þessum aldri. Það er ein af ástæðunum fyrir því að mjög mikilvægt er að við tölum um lausnir í þeim umræðum sem nú eru um hvernig við getum kennt börnunum að umgangast netið.

Mér finnst líka mjög mikilvægt í þessari umræðu varðandi þá sem leita á börn og eru komnir inn í netheima, að gera sér grein fyrir því líka að eftir að sú þróun hefur orðið er rekjanleiki afbrotanna miklu meiri en þegar börn voru numin á brott, sem gerist reyndar enn. Einungis um 1% þeirra sem sæta kynferðislegu ofbeldi sem börn eru numin á brott. Þess vegna fagna ég þessari lagabreytingu. Við megum ekki gleyma því ekki að langflest, nánast öll kynferðisafbrot gagnvart börnum eiga sér stað í heimahúsum og við megum ekki heldur gleyma því þegar við förum út í óvæga umræðu eins og verið hefur undanfarið, þótt ég skilji mjög vel að fólk fyllist hreinlega viðbjóði þegar það les um svona atburði, að það má ekki gera það erfiðara fyrir börn að segja frá. Þegar fólk er hreinlega tekið af lífi í fjölmiðlum þurfum við að hugsa: Er það gott fyrir þá sem vilja láta vita af brotum sem eiga sér stað nú á dögum?

Rætt var á fundi nefndarinnar í morgun um ýmsar lausnir og komu fram mjög athyglisverðir punktar á fundinum. Ég hvet fólk til að kynna sér þessi mál vel. En mér finnst við þurfa að stíga varlega til jarðar þegar við ætlum að rýmka heimildir lögreglu í þá veru að hún geti notað tálbeitur. Ég er ekki að segja að ég sé á móti því en ég vil skoða það mjög vel því að að þegar maður er búinn að setja ákveðinn lagalegan „standard“ um eitthvert tiltekið svið er auðvelt að færa það yfir á önnur brotasvið. Við þurfum því að passa réttarríkið okkar þannig að það þróist ekki í þá átt. Ég vona að fólk skilji að þegar tálbeitur eru notaðar þýðir það að stundum er verið að hvetja til lögbrots sem hefði ekki átt sér stað án tálbeitunnar. En þetta er mjög viðkvæmt mál, það er engin ein lausn til til þess að bregðast við þessu nema kannski sú að fólk sé upplýst, að samfélagið hafi réttu verkfærin til þess að takast á við vandamálið. En hlutverk okkar foreldranna er mjög stórt í þessum máli, við megum ekki gleyma því.

Það má alltaf gera betur og fram kom í máli Barnaverndarstofu að enn þá væru gloppur sem fylla þyrfti upp í. Við í nefndinni munum að sjálfsögðu skoða allar þær ábendingar sem við fáum. Síðan þarf auðvitað að tryggja það t.d. ef menn sem hafa kynferðisbrot gagnvart börnum á sakaskrá sinni og sækja um vinnu, að þeir sem taka við atvinnuumsóknum og ráða í vinnu skoði málin vel. Núna nýverið kom fram að lögreglan réð mann með slíkt brot á sakaskrá sinni án þess að fara fram á ítarlegri upplýsingar úr sakaskrá. Það kom mjög skýrt fram hjá ríkissaksóknara á fundinum í morgun að þessi brot fyrnast aldrei og eru alltaf sýnileg. Fá lönd í heiminum hafa slík ákvæði þannig að það er ekki síður mikilvægt að allir axli ábyrgð ef gloppur eru einhvers staðar.

Síðan fannst mér líka athyglisvert sem fram kom að um 45% þeirra sem fremja svona brot hafa sætt líkamlegu ofbeldi í bernsku sinni. Ég held að við pössum upp á að hafa líka góð meðferðarúrræði fyrir fólk sem haldið er svona óeðli. Eins fundust mér athyglisverðar hugmyndir um að settur yrði upp neyðarsími fyrir börn sem þau gætu hringt í til þess að ræða um hvort það sem þau upplifðu væri eitthvað sem fara þyrfti með lengra í kerfinu eða bara til að fá að tala við einhvern um hvernig þeim líður.

Það eru til margar leiðir. Við á Alþingi ætlum að afla okkur frekari upplýsinga. Fleiri fundir verða um málið í nefndinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá fund með fulltrúum frá rannsóknarblaðamönnum til að heyra þeirra hlið á þessari aðferð varðandi tálbeitur. Ekki er síður mikilvægt að fá sérfræðinga á fund nefndarinnar í þessum tilteknu afbrotum út frá geðfræðinni, út af því að komið hafa upp alls konar kröfur úti í samfélaginu sem ég tel að ég hafi ekki nægilega þekkingu til að geta rætt um, því að þetta eru það viðkvæm mál, varðandi úrlausnir, né komið með tillögur um fyrr en ég hef aflað mér frekari upplýsinga.

Ég fagna hinni nýju lagabreytingu og ég fagna því jafnframt hve gott samstarf við eigum oft í nefndum, bæði í velferðarnefnd og í allsherjar- og menntamálnefnd þegar við fjöllum um þá sem við þurfum að passa hvað best í samfélaginu okkar, þ.e. börnin. Ég hlakka til að afla mér frekari upplýsinga um málið þó að viðfangsefnið sé ógeðfellt.