141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurninguna þarf ég að afla mér nánari upplýsinga um það, en það er einmitt einn af þeim þáttum sem við þurfum að hyggja að. Við erum sífellt að breyta lögum og setja reglugerðir en svo skortir iðulega á um framkvæmdina. Það var ágæt spurning sem hv. þingmaður bar fram og mikilvægt er að henni verði svarað. Það mun ég að sjálfsögðu gera.

Varðandi kröfur um rýmri heimildir, m.a. tálbeitur hef ég vakið athygli á því að sett var reglugerð í maímánuði árið 2011 sem kveður á um notkun tálbeitna á þessu sviði. Settir eru tilteknir fyrirvarar, en við höfum einnig fært það í lög að það er óheimilt að mæla sér mót við barn með kynferðislegan ásetning í huga, þannig að við erum að stoppa inn í allt lagaumhverfið. Ég hef óskað eftir því að lögreglan geri grein fyrir því hvernig hún hafi beitt þeim úrræðum sem þegar eru fyrir hendi í lögum. Þar erum við aftur komin að kjarna málsins: Hvernig nýtum við þau lög og þær reglur sem við höfum og þær upplýsingar sem við höfum?

Við erum að átta okkur á því núna varðandi þá einstaklinga sem komu fram í fjölmiðlum á undanförnum dögum að það nægði að hringja í þá eða leita til þeirra til að fá fram allar þessar játningar. Það þurfti engar tálbeitur til þess. Það þurfti einungis að fylgja eftir vitneskju sem var á margra vitorði, þar á meðal lögreglunnar. Hún þarf engar tálbeitur til að ná í slíka menn.