141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[16:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ef ég á að tala alveg heiðarlega þá mundi ég helst vilja banna þetta allt saman. Ég held hins vegar að ekki sé hægt að koma því við. Í annan stað mundi ég því aðeins gera það með þeim fyrirvara að ég fyndi leiðir fyrir þau þjóðþrifasamtök sem fá fjármagn úr þessu til að þau gætu fjármagna sig með öðrum hætti. Þá yrði sú kvöð sett á mann.

Í því ljósi segi ég: Já, það skiptir máli hvort þetta rennur til innlendra aðila eða erlendra. Það skiptir máli hvort þetta fer hingað í Landsbjörg eða Betsson eða hvað þessar erlendu spilabúllur heita sem auglýsa á netinu. Það skiptir máli, það skiptir mig máli. Ég vil reyna að koma í veg fyrir að þeir milljarðar sem nú renna úr landi í gegnum netið fari þangað. Ég vil frekar beina þessu fjármagni í íslenska þjóðþrifastarfsemi. Mér finnst það skipta máli. Mér finnst líka skipta máli að það sé þá gert á ábyrgan hátt þannig að við séum ekki að níðast á fólki sem ræður ekki gjörðum sínum. Norðmenn hafa verið að gera þetta og íslensku happdrættin hafa tekið vel í þetta. Þau hafa viljað fá leyfi til að fara að einhverju leyti yfir á netið, en þau eru alveg sátt við að það sé gert að því tilskyldu að spilunin verði á ábyrgan hátt.

Sérstaklega er spurt um lottóin og fjármögnunina. Já, allir kæmu til með að taka þátt í þessu. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir breytingu varðandi eftirlit á ýmsum þáttum sem snúa að happdrættunum, þar á meðal lottóinu. Það yrði svipað regluverk en aðrir aðilar kæmu til með að sinna eftirlitinu (Forseti hringir.) en nú gera. Við erum að færa það út úr ráðuneyti yfir til sjálfstæðs aðila sem sérhæfir sig (Forseti hringir.) í þeirri starfsemi.