141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessu máli. Hann fór ágætlega yfir hvað er ekki í frumvarpinu og lýsti því raunar líka yfir hvað hann vildi gjarnan sjá gerast og sagði, ef ég fer með rétt mál, að ef hann fengi að ráða mundi hann banna þetta allt. Það sagði hæstv. ráðherra nákvæmlega. Hann var að tala um happdrættin ef ég skildi hann rétt en annars leiðréttir hæstv. ráðherra mig, það væri ágætt að koma því á framfæri hvað hann vildi þá banna.

Markmiðið með þessu frumvarpi er eflaust býsna gott. Það er í þessum greinum og ég get fundið samhljóm með ákveðnum hlutum og setningum í frumvarpinu. Ég verð þó að segja að ég botna hins vegar ekkert í þeim óskapnaði að fara að setja hér á fót einhverja nýja ríkisstofnun. Að fara að þenja út ríkisbatteríið með Happdrættisstofu. Er ekki hægt að nota það sem við höfum í dag og styrkja það með einhverjum hætti, t.d. með því að veita sýslumönnum og öðrum sem hafa sinnt þessu einhverjar frekari heimildir ef þarf, alla vega styðja þá einhvern veginn? Ég sé ekki þörfina á því að fara að fjölga í ríkisbatteríinu.

Ég verð nú að segja að þótt ég geti tekið undir margar þær áhyggjur sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra og í frumvarpinu sjálfu og skýringum, finnst mér algjörlega vanta rökin fyrir því að setja þessa stofnun á fót. Það getur vel verið að þau rök komi fram og það verði rökstutt betur en er gert í frumvarpinu en ég get ekki keypt það eins og það liggur fyrir, að þetta sé nákvæmlega það sem eigi að gera vilji menn ná fram þeim markmiðum sem eru í frumvarpinu.

Ég held að það séu til aðrar leiðir og að þær séu hagfelldari fyrir framhaldið og framtíðina en að vera að búa til nýja ríkisstofnun því að reynsla okkar er sú að þær stækka. (Forseti hringir.)