141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við réðumst í samanburðarkönnun á stöðu mála hér og á Norðurlöndunum og hópur fólks sem grandskoðaði þessi mál á mínum vegum, sérfræðingar í ráðuneytinu og utanaðkomandi aðilar, komust að þeirri niðurstöðu að laga- og reglugerðarumhverfið væri lakast hérna af öllum Norðurlöndunum. Við erum þá að leita í smiðju þeirra sem við teljum að hafi gert best og niðurstaða okkar er sú að það sé Noregur. Við höfum hliðsjón af því þegar við gerum þessar tillögur.

Það er alveg rétt að einhver verkefni eru hjá sýslumannsembættunum en það er ekki þar með sagt að það þurfi að taka allt sem þar er. Við erum fyrst og fremst að búa til óháðan aðila eða sjálfstæðan aðila sem fylgist grannt með þessum málum og hefur yfirstjórn þeirra á hendi. Síðan heyrir það að sjálfsögðu undir ráðuneytið.

Það sem Norðmenn hafa svo gert með lagabreytingu, og þá er ég að vísa til framtíðarskrefs sem ég er ekki að leggja til núna, er að þeir hafa eina allsherjarregnhlíf og síðan er það norska þingið sem tekur ákvörðun um hvernig eigi að ráðstafa fjármunum sem koma úr happdrættum og spilakössum til starfsemi sem er skilgreind sem þjóðþrifastarfsemi. En það er langtímaverkefni.

Ég verð að segja að Happdrættisstofa, sem beinir fyrst og fremst fjármagninu varðandi meðferðarúrræðin til annarra, ætlar ekki að fara að sinna meðferðarúrræðum. Hún hefur umsjón með því eða verkstýrir því hvert peningarnir fara, til SÁÁ, heilbrigðisstofnana eða annarra. (Forseti hringir.) Við teljum það gott og hafa samlegðaráhrif að hafa alla þá starfsemi sem sérhæfir sig í þessu undir sama þaki. Það þarf ekkert að vera mjög stórt. (Forseti hringir.)