141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, þvert á móti hef ég fundið fyrir mjög jákvæðum straumum frá þessum aðilum sem vilja ræða leiðir til þess að koma böndum á netspilun sem hefur augljóslega færst mest í vöxt og veldur mörgu fólki mestum skaða. Þarna er hægt að spila allan sólarhringinn og þetta er mikill vandi sem Norðmenn hafa verið að horfa á og íslenskir aðilar líka, þeir vilja að við reynum í sameiningu að finna leiðir til að koma böndum á netspilun þannig að hún verði ábyrgari og meiði fólk ekki eins illa.

Er önnur leið en þessi stofa? Já, að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu gætum við haldið þessari ráðgjafarþjónustu og eftirliti innan ráðuneytisins, það er vissulega hægt. En það kostar líka sitt, ekkert síður. Ég held hins vegar að það sé betra að iðnaðurinn fjármagni þetta sjálfur og hafi eftirlit með sjálfum sér að þessu leyti og það hefur ekki verið tekið illa í það. Þeim fannst við ganga of langt í upphaflegum hugmyndum okkar um gjaldtöku og þá var gjaldið lækkað í samkomulagi. Það er verið að reyna að leita leiða og ná samkomulagi í sátt við þessa aðila.

Ég er mjög hissa á því hvernig þessu er tekið hér, að þetta sé einhver löngun og þörf til að setja á ríkisstofnanir og þenja þær út. Svo er alls ekki. Það er verið að reyna að gera hlutina á eins markvissan og uppbyggilegan hátt og nokkur kostur er og í góðu samráði og samstarfi við þá aðila sem að þessum málum koma.

Hvort góðgerðafélögin hafi brugðist. Ég tel að samfélagið allt hafi brugðist í þessum efnum. Við stöndum okkur ekki nógu vel. Við erum ekki með nógu góð lög, við erum ekki með nógu gott regluverk, við erum með miklu lakara regluverk en gerist á Norðurlöndunum almennt og við erum að leita í smiðju þeirra að fyrirmyndum þar sem best gerist. Þess vegna fórum við til Noregs (Forseti hringir.) og varðandi eftirlitið með kortafyrirtækjum erum við einfaldlega að horfa til þess sem menn eru að gera þar.