141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:30]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, enn greinir okkur hæstv. innanríkisráðherra á vegna þess að ég tel að regluverkið sem slíkt dragi ekki úr vandanum. Ég tel önnur tæki nærtækari til að ráðast að rótum vandans eins og forvarnastarf, siðferði í þjóðfélaginu, uppeldi á heimilum, foreldrar og þar fram eftir götunum.

Mig langar í lok þessarar umræðu að vitna í lokaorð hæstv. innanríkisráðherra í umræðu sem fór fram hér áðan í öðru máli um tálbeitur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. Þar hélt hæstv. innanríkisráðherra afskaplega góða ræðu og lauk máli sínu með þeirri brýningu til þingmanna að tálbeitum og eftirliti, hlerunum og öðrum þess háttar rannsóknarúrræðum eigi að beita í mjög miklu hófi. Einkum og sér í lagi þyrftu menn — og ég hjó sérstaklega eftir því — að byrja á því að skoða hvort öll þau tæki sem við höfum í dag hefðu verið notuð og öll þau úrræði nýtt. Það þyrfti að skoða það gaumgæfilega. Þetta held ég að eigi mjög vel við í þessu máli og gerir það alveg örugglega ef það á við í málum eins og um tálbeitur í kynferðisglæpum.