141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. 25–30 milljónir eru mjög miklir peningar og þetta segi ég af reynslu. Ég hef þurft að berjast fyrir því, m.a. innan þingsins, og ég hef staðið frammi fyrir forgangsröðun innan ráðuneytis. Ég hef líka þurft að forgangsraða og veit að 25–30 milljónir eru gríðarlega miklir peningar, ekki síst til forvarna. Það er hægt að ná miklum árangri með slíkum peningum til skólanna, til þeirra sem við viljum helst ná til sem eru ungdómurinn í landinu. Þó að hæstv. ráðherra tali um að það sé hlutfallslega lítið tekið af þeim frjálsu félagasamtökum sem iðulega standa að þessari starfsemi og nota það síðan til uppbyggingarstarfsemi eru þetta miklir peningar, bæði í þeirra augum og mínum af því að ég veit hvað hægt er að gera fyrir þessa fjármuni.

Ég skora á ráðherra að reyna að nota kerfið. Það er hægt að ná gríðarlegum samlegðaráhrifum af því að það er verið að gera fullt innan kerfisins, innan velferðarráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Það er greinilega verið að sinna þessu að einhverju leyti innan innanríkisráðuneytisins. Fínt, byrjum þá að samhæfa þetta, reynum að vinna úr þeirri þekkingu sem er til innan stjórnsýslunnar, en förum ekki af stað að búa til enn eitt batteríið sem er ekki endilega þarfasti þjónninn í ríkisrekstrinum. Ég er núna með í kollinum Fjölmiðlastofu sem kom með einhvern furðulegan úrskurð um það sem má vera í íslensku sjónvarpi varðandi íslenskt mál, enskt mál o.fl. Það er þó önnur saga.

Ég velti líka fyrir mér sjónarmiði persónuverndar og þætti vænt um að hæstv. ráðherra kæmi aðeins inn á hana (Forseti hringir.) og hvort ráðuneytið hafi verið í samvinnu við Persónuvernd varðandi upplýsingar um greiðslukortaþjónustuna.