141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Þetta hafa verið athyglisverðar umræður. Mig langar að fara yfir athugasemdir sem hafa komið frá IMMI sem er alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Hún kom með mjög greinargóðar og gagnlegar athugasemdir um málið og varpaði upp ýmsum spurningum sem ég óska eftir að fá svör við í þessum umræðum. Mér fannst athyglisverðir punktar koma fram í sumu sem var greint frá í grein Pawels Bartoszeks — og mig langar að nefna að mér finnst mjög ómaklegt sem hæstv. innanríkisráðherra gaf í skyn, að þeir sem gagnrýna þetta frumvarp séu á einhvern hátt að gera lítið úr vanda spilafíknar. Það vill svo til að ég á bæði vini og ættingja sem hafa glímt við þessa fíkn sem og alls konar aðrar fíknir, þannig að það er fjarri lagi að ég sé að gera lítið úr þeim vandamálum sem það fólk á að glíma við.

Ég ætla að benda á nokkra þætti sem ég óska eftir að fá svör við og hef alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp út frá hliðum sem margir hafa kannski ekki velt fyrir sér. Í frumvarpinu er leitast við að koma í veg fyrir annars vegar þátttöku í leikjum á netinu þar sem lagðir eru undir peningar og hins vegar að vefsíður sem reka slíka leiki geti notað greiðsluþjónustu án þess að hafa fengið leyfi frá þar til gerðri happdrættisstofu. Forsenda fyrir því að hægt sé að koma í veg fyrir þátttöku í leikjum á netinu er að stundað sé eftirlit með allri netumferð almennings og hún ritskoðuð. Ég vona að hin hræðilega netlögga sé ekki upprisin í þessu frumvarpi. Slíkt hefur tíðkast í sumum löndum eins og Sádi-Arabíu, Sýrlandi og Afganistan, þar sem þátttaka í fjárhættuspilum er ólögleg. Almennt hefur svona bann ekki verið lagt á í lýðræðisríkjum og fyrir því eru fjölmargar ástæður sem verða reifaðar. Í stuttu máli hefur bann af þessu tagi í för með sér ýmsar aukaverkanir sem ógna tjáningarfrelsi, upplýsingafrelsi, friðhelgi einkalífsins og meðalhófi. Ég vona að hæstv. ráðherra sé að hlusta, því hann er ekki lengur í þingsalnum.

Til að hægt sé að stunda eftirlit og ritskoðun á netinu þarf tvennt að koma til. Annars vegar þarf að meina almenningi að dulkóða samskipti sín, því ekki er hægt að hafa eftirlit með dulkóðuðum tengingum, og hins vegar þarf að ákveða með hvaða hætti skuli ráðstafa ritskoðunarlistanum. Bann á dulkóðatengingar hefur ýmsar hjáverkanir. T.d. er ekki lengur hægt að bjóða upp á heimabankaþjónustu eða rafræn viðskipti. Vefþjónustur á borð við Amazon og Ebay verða ekki lengur aðgengilegar. Þá er heldur ekki lengur hægt að tryggja vernd persónuupplýsinga, hvort sem það er flæði sjúkraupplýsinga eða upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða þá að upplýsingar almennings komist á milli óhleraðar af þriðju aðilum og án þess að átt sé við þær. Þetta þýðir t.d. að hver sem er getur lesið og breytt tölvupósti annarra.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi svör við því hvort þetta verði veruleikinn, til að hægt sé að framfylgja lögunum ef af þeim verður. Ef dulkóðaðar tengingar eru ekki bannaðar er nefnilega ómögulegt að framfylgja þessu banni. Ef einhver undantekning er gerð fyrir dulkóðaðar tengingar er hægt að nota þá undantekningu til að miðla boðum áfram til spilanna og þar með að spila leiki á ólöglegan hátt án þess að hægt sé að fylgjast með því. Mér finnst þetta frumvarp vera svolítið í anda þess að fólk sé ekki algerlega meðvitað um þá miklu tækniþróun sem hefur átt sér stað. Að hægt sé að fylgjast með því sem fer fram á netinu, koma í veg fyrir það eða sanna að það hafi átt sér stað. Sé það gert er ljóst að eingöngu þeir sem eru tæknilega hæfir til þess munu geta gert það fyrst um sinn en aðrir geti að lokum nýtt sér einfaldar hjáleiðir. Ljóst er að sé það tilfellið er ekki lengur hægt að halda því fram að allir standi jafnfætis fyrir lögum.

Þetta er einfalt val. Á að leyfa dulkóðun eða banna spilun leikja á netinu? Eðli upplýsinga kemur í veg fyrir að hægt sé að gera hvort tveggja þannig að þetta er í raun og veru ógeranlegt. Sé ákveðið að farin verði sú leið að banna dulkóðun verður að stíga næsta skref til að bannið sé eiginlegt og raunverulegt. Loka verður fyrir aðgang að vefsíðum þar sem netspilun er möguleg. Þetta heitir ritskoðun og samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár Íslands má aðeins setja tjáningarfrelsi skorður með lögum sé um að ræða allsherjarreglu eða öryggi ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljast þær upplýsingar nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þetta gefur okkur nokkrar spurningar sem vert er að svara.

1. Ógnar netspilun allsherjarreglu? Nei. Allsherjarregla verður síður brotin en ella sé fólk sitjandi heima hjá sér spilandi spil, hvort heldur það sé á netinu eða ekki.

2. Ógnar netspilun öryggi ríkisins? Nei. Það að fólk spili spil hefur engin áhrif á innra eða ytra öryggi ríkisins.

3. Ógnar netspilun heilsu manna? Netspilun ógnar ekki líkamlegri heilsu manna nema hún sé stunduð í verulega langan tíma í senn og spilararnir gæti ekki að næringu sinni, hreinlæti, hreyfingu eða öðru sem skiptir máli. Netspilun ógnar ekki andlegri heilsu manna nema hugsanlega í sama mæli og spilakassar, löglegt happadrætti, Monopoly eða Trivial Pursuit. Óeðlilegt væri að banna sumt en ekki annað með þessum rökum.

4. Ógnar netspilun siðgæði manna? Nei. Það að leggja fé sitt eða annarra að veði hefur ekki talist ósiðlegt enda mætti ef til vill líka banna kauphallir með sömu rökum.

5. Gengur netspilun gegn réttindum annarra? Nei. Hugsanlega mætti reyna að halda því fram að sigurvegararnir í netspilum séu að skerða rétt andstæðinga sinna til eignarréttar, en þau rök teljast ekki halda þar sem andstæðingar hafa fulla getu til að vita hvað þeir séu að gera. Svo mætti lengi telja.

Ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að vel athuguðu máli að samt sé rétt að ritskoða leiki á netinu verður að taka mið af því að það þarf að gerast með einhverjum hætti. Algengasta leiðin er að haldinn sé úti listi af lénum og IP-tölum sem er óheimilt að sækja efni í. Ef eingöngu er haldið utan um lénið getur hver sem er nálgast vefinn í gegnum IP-töluna. Sé lokað fyrir samskipti við IP-töluna getur lokast á aðra lögmæta vefi sem eru hýstir á sömu tölvu og umræddur leikur. Við sem erum í pírötum höfum einmitt haft reynslu af því. Við notum eitthvað sem kallað er Piratepad sem er svipað og Google Docs, þar sem maður getur unnið saman í ritvinnsluforriti á netinu. En bókasöfn borgarinnar hafa lokað á allt sem heitir „pirate“ og þar af leiðandi hafa stjórnmálasamtök ekki kost á að vinna saman, eins og við í þessu forriti sem heitir Piratepad. Það eru svo margar holur og það er svo mikið af hættum sem ég held að ráðherrann geri sér ekki grein fyrir þegar hann kemur með þessar tillögur og ég vona í fullri einlægni að hann skoði þetta vel.

Þess ber að geta líka að ritskoðunarlista þarf að viðhalda og honum þarf að koma til netþjónustufyrirtækja sem sjá um að framfylgja honum. Þetta er t.d. gert í Danmörku þar sem leynilegum ritskoðunarlista er viðhaldið. Listinn hefur verið leynilegur til margra ára þannig að almenningur getur ekki tryggt að eingöngu sé það efni ritskoðað sem er raunverulega ólöglegt. Þar með opnast möguleiki á að ritskoðun fari fram í pólitískum tilgangi, eins og reyndin virðist vera í Danmörku. En væri listinn opinn og aðgengilegur væri hann svo gott sem listi yfir áhugaverðar síður fyrir áhugamenn um netspilun, kostaður af ríkinu.

Í Danmörku gerðist það árið 2012 að fyrir mistök slæddist lénið google.com ásamt öllum undirlénum þess inn á ritskoðunarlista dótturfyrirtækis símans. Dótturfyrirtæki símans sem veitir netþjónustu í Danmörku var fyrst fyrirtækja til að taka nýju útgáfu ritskoðunarlistans í notkun en það leiddi til margra klukkutíma þjónusturofs hjá þúsundum viðskiptavina fyrirtækisins sem reiða sig á þjónustu frá Google, þar á meðal tölvupóst.

Vandamálin við ritskoðun eru fjölmörg. Ein hættan sem gjarnan er bent á er hála brautin sem felst í því að þegar einu sinni hefur verið samþykkt að ritskoðun sé ekki endilega slæm í öllum tilvikum byrjar samkeppni um að finna ný tilfelli þar sem ritskoðun getur hugsanlega verið viðeigandi lausn á vandamáli. Það hefur ekkert vandamál verið leyst með ritskoðun án þess að önnur dýpri vandamál verði til við það. Síðan er áhugaverð greining á því hvað gerist við netspilun og athyglisvert að skoða t.d. hvaða leikir eða fyrirtæki gætu talist sem happdrætti eða fjárhættuspil. Þá mætti maður t.d. skoða hvort muni verða bannað að nota Eve Online. Þar eru menn óformlega að flytja til peninga sem eru raunpeningar sem verða fara inn í hagkerfi Eve Online. Verður það bannað? Verður t.d. bannað að fara í World of Warcraft? Þar setur maður peninga inn og er að taka þátt í leik með fullt af öðru fólki. Verður bannað að nota t.d. peningamarkaðssjóði eða hlutabréfamarkaði? Þeir falla undir allar skilgreiningar fjárhættuspils. Hversu langt ætlar ráðherrann að ganga?

Síðan langar mig líka að benda á eitthvað sem fellur undir bann við greiðsluþjónustunni, því það er líka tekið fyrir í þessu frumvarpi. Í dómsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra var tekist á um hvort greiðslukortafyrirtæki væri heimilt að neita aðila um greiðsluþjónustu þrátt fyrir þar til gerðan samning. Dómurinn var hluti af stærri alþjóðlegri umræðu þar sem rætt var um hvort réttlætanlegt væri að loka greiðslu til sumra fyrirtækja og félagasamtaka en ekki annarra. Til að mynda hefur ekki tíðkast að loka afgreiðslu til félaga nýnasista eða kynþáttahatara, en þó hefur verið lokað á greiðslu til vefsíðu sem opinberar spillingu í stjórnkerfum. Ég vona að hæstv. ráðherra finnist það ekki í lagi.

Spurning sem verður að svara í þessu tilfelli er hvort það að koma í veg fyrir að tilteknir aðilar geti stundað viðskipti sín á milli teljist ekki sem form af ritskoðun. Hagkerfið er stór partur af gangvirki samfélagsins eru margar tegundir tjáningar ómögulegar án þess að til viðskipta komi, þó svo það sé eðlilegt að hafa reglur um hegðun fyrirtækja. Í þessu ljósi er skaðlegt að takmarka rétt einstaklinga til að kjósa við hverja og með hvaða hætti þeir stunda viðskipti.

Annar þáttur sem verður að hafa í huga er að ef greiðsluþjónustufyrirtækjum er meinað að veita ákveðnum fyrirtækjum löglega þjónustu aukast verulega líkurnar á því að samhliða opinbera peningakerfinu þróist sjálfstætt peningakerfi. Það hefur orðið æ algengara á netinu á undanförnum árum, þrátt fyrir að vera bannað á Íslandi samkvæmt 154. gr. almennra hegningarlaga. Dæmi um slíkan rafrænan gjaldmiðil er Bitcoin sem er nafnlaus og dulkóðaður þannig að svo til ómögulegt er að nafngreina þátttakendur í viðskiptum. Þetta ýtir undir möguleikana á peningaþvætti og útilokar möguleikana á skattlagningu viðskiptavina.

Í stað þess að auka gagnsæi og áreiðanleika peningakerfisins og draga úr þátttöku í netleikjum er líklegt að bann við greiðsluþjónustu til ákveðinna aðila dragi úr gagnsæi og auki spillingu, peningaþvætti og annað ólöglegt athæfi. Einnig dragi það úr getu eftirlitsstofnana til að sjá raunverulega stöðu markaðarins og hverjir starfa á honum, sem er m.a. forsenda þess að hægt sé að skattleggja þá.

Niðurstaðan er þessi: Fyrirliggjandi frumvarp er með öllu vanhugsað og er ólíklegt til að leysa nokkurn vanda. Það vekur upp verulegar spurningar um atriði sem snúa að tjáningarfrelsi, viðskiptafrelsi, friðhelgi einkalífsins og öðrum grundvallarmannréttindum. Það er líklegra til að valda vandamálum en leysa þau.

Líklegt er að lagt hafi verið upp í frumvarpsgerðina með það í huga að leysa raunveruleg vandamál. Lagt er til að leitað sé lausna á þeim vandamálum, hver svo sem þau kunna að vera, sem fela ekki í sér bein bönn og ritskoðun sem mundu hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Lagt er til að frumvarpinu verði með öllu hafnað í þeirri mynd sem það er.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum sem setja fyrirvara á þetta frumvarp og það er: Nýtum þau tæki og þau verkfæri sem við höfum. Rétt eins og ráðherrann benti á fyrr í dag þegar fjallað var um tálmanir skulum við skoða hvað við höfum áður en farið verður í þessa vegferð. Ef ákveðið verður að halda áfram á þessari vegferð þá bið ég ráðherrann í fullri einlægni að skoða mjög vandlega það sem hér hefur komið fram.