141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Það vakna reyndar ýmsar spurningar þegar farið er yfir þetta frumvarp um gamla kunningja þó að búið sé að slípa einhverja annmarka af því. Eins og hæstv. ráðherra benti á er búið að taka út tímabundið starfsleyfi sem var fimm ár og síðan er búið að lækka skattinn sem eru kunnugleg vinnubrögð hjá ríkisstjórninni, þ.e. að boða fyrst mjög háan skatt og draga svo úr og halda því fram að hann sé mjög lágur. En hvað um það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra örfárra spurninga. Fyrst það sem snýr að umsjón og eftirliti. Fram kemur að Póst- og fjarskiptastofnun fari með eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar með talið starfsemi og gjaldskrá skráningarstofu og þjónustu samkvæmt lögum þessum og „eftir atvikum“ starfsemi skráningaraðila og rétthafa. Ég hefði viljað að hæstv. ráðherra útskýrði nánar hvað er átt við þarna.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, því að fram kemur að takmarka eigi skráningar erlendra aðila á .is: Hver er meining hæstv. ráðherra með því? Hver eru markmiðin með því að torvelda erlendum aðilum að skrá lén á .is?

Síðan er texti þarna sem segir að erlendir aðilar þurfi að hafa tengsl við Ísland. Ég hefði viljað biðja hæstv. ráðherra um að útskýra hvað það þýðir að hafa tengsl við Ísland. Ég skil það ekki.

Það kom reyndar fram í fréttum í dag um þennan svokallaða lénaskatt að ISNIC, sem er það fyrirtæki sem heldur utan um .is, hafi gert samanburð á um 50 löndum, ef ég man rétt, og hvergi sé greiddur lénaskattur. Hvers vegna hér?