141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að farið verði yfir atriði af þessu tagi í meðferð þingsins þegar þingnefnd tekur málið til skoðunar, en um hin almennu mál sem þingmaðurinn vekur máls á þá var nokkuð rætt hvernig haga ætti gjaldtöku. Á að gera þetta samkvæmt reikningum eða samkvæmt einhverju almennu viðmiði? Við vildum ekki að Fjármálaeftirlitið gæti rukkað fjármálastofnanir samkvæmt reikningum — varla. Reynt er að finna eitthvert meðalhóf í þessu. Þetta var gert eftir að við hlustuðum á sjónarmið sem komu frá fulltrúum fyrirtækisins ISNIC, sem þótti fyrri upphæðin vera of há, og við hlustuðum á sjónarmið sem komu frá Póst- og fjarskiptastofnun sem á að sinna þessu hlutverki.

Heppilegast hefði verið að mínum dómi að þetta fyrirtæki hefði aldrei verið einkavætt eins og gert var á sínum tíma. Hvað gerum við þá? Við reynum að búa því umgjörð þar sem við náum þeim markmiðum sem við ella hefðum viljað ná hjá fyrirtæki í einkaeign. Við viljum koma í veg fyrir að miklir fjármunir verði teknir í arði út úr starfseminni. Vísað er til þess í frumvarpinu og greinargerð með því. Eftirlitið lýtur meðal annars slíkum þáttum, en um leið viljum við að þessu fyrirtæki vegni sem allra best því að það eru hagsmunir samfélagsins að Íslandsléninu vegni sem allra best. Þess vegna viljum við gæta að því að ekki verði skattlagt úr hófi og umgjörðin búi þessari starfsemi öryggi til frambúðar. Við tókum út þennan fimm ára tímaramma vegna þess að það hefði torveldað fyrirtækinu og gert reksturinn dýrari til lengri tíma litið. (Forseti hringir.) Við förum bil beggja, pössum upp á hina samfélagslegu hagsmuni og hagsmuni fyrirtækisins. (Forseti hringir.) Hvorir tveggja verða að ríma saman og ég held að við séum búin að finna bærilegan gullinn veg í því efni.