141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á kjörtímabilinu hefur reglulega verið rætt úr þessum ræðustól um hátt hlutfall atvinnulausra og þær slæmu afleiðingar sem atvinnuleysi hefur á líf manna og efnahag. Stjórnvöld hafa unnið ötullega að því að skapa virkniúrræði og ný störf til að stemma stigu við langtímaatvinnuleysi og öllum þeim slæmu aukaverkunum sem því fylgja.

Þau svæði sem einna verst hafa orðið úti hvað þetta varðar eru Suðurnesin. Þar fækkar þó atvinnulausum jafnt og þétt eins og á öðrum stöðum á landinu. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi í desember sl. 5,7% að meðaltali á landinu öllu en 7,3% í desember 2011. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 12,8% í desember 2011 og 10,2% í desember sl., þ.e. 1.069 einstaklingar.

Þótt vandinn minnki er hann enn of stór. Þess vegna fagna ég því sérstaklega þegar góðar fréttir berast af nýjum atvinnutækifærum á Suðurnesjum og þær hafa verið nokkrar undanfarið.

Í Sandgerði hefur atvinnuleysi verið mikið en þar er nú verið að reisa eða endurbyggja fjögur fiskvinnsluhús. Þar munu 200–250 manns fá vinnu og ótalin þar eru þau afleiddu störf sem fylgja í kjölfarið. Kvótaeign er ekki mikil í Sandgerði en verslað er á fiskmörkuðum og þannig fæst hráefni til vinnslu.

Risavaxin fiskeldisstöð rís í hrauninu við Reykjanesvirkjun. Kælivatn úr virkjuninni sem rennur nú út í sjó á að nýta til að rækta hlýsjávarfisk sem seldur verður til meginlands Evrópu. Þar eru 75 bein störf en alls 150.

Um 100 manns, einkum iðnaðarmenn, fá á næstunni vinnu við breytingar og endurbætur í Leifsstöð. Breytingarnar eru gerðar til að mæta ört vaxandi fjölda farþega um stöðina en fjölgun þeirra kallar einnig á fleiri starfsmenn til þjónustu við þá.

Virðulegi forseti. Það eru góðar fréttir af atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og því ber að fagna sérstaklega.