141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hitti naglann á höfuðið í gær í umræðu um Evrópusambandsmálið þegar hann líkti ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar frá því í gær eða fyrradag um Evrópusambandsaðildina við einhvers konar leikrit, sjónarspil. Þannig er þetta í rauninni. Nú er búið að draga tjöldin frá, á sviðinu standa leikararnir og þeir eru farnir að rífast um hvað standi í handritinu sem þeim er ætlað að flytja í þessu leikriti, þessu sjónarspili.

Hæstv. utanríkisráðherra segir okkur að allt þetta hafi verið gert til að aðildarviðræðurnar yrðu ekki bitbein í kosningabaráttunni, þetta væri ekki svona pólitískt mál sem stjórnmálamenn ættu að ræða um.

Hæstv. forsætisráðherra segir okkur að meginástæðan hafi hins vegar verið sú að ef þetta hefði ekki verið gert hefðu mögulega orðið hér stjórnarslit.

Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði í Morgunblaðinu í gær að hann teldi að áframhaldandi viðræður við ESB yrðu eitt af kosningamálunum í vor. Hann bætti um betur í umræðum í gær og sagði að annars væri ferlið í fullkomnu uppnámi.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði svipaða hluti og síðan heyrum við frá vinstri grænum sem eru að segja okkur að það hafi orðið algjör tímamót með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægja á þessu ferli, eins og það er kallað.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fór yfir þessi mál í gær frá sínum sjónarhóli. Eitt af því sem hann sagði vakti með mér ákveðnar spurningar og þess vegna óska ég eftir því að hann skýri mál sitt aðeins betur. Hv. þingmaður sagði efnislega: Er pólitísku menningunni sem ríkir á Alþingi það um megn að leiða þetta ferli til lykta eða þarf mögulega nýja pólitíska leiðsögn í þessu máli?

Hvað er það sem hv. þingmaður er að segja? Er hv. þingmaður að segja að sá meiri hluti á Alþingi sem skipaði sér á bak við aðildarumsóknina sé ekki fær um að ljúka þessu máli? Er hv. þingmaður að segja okkur að sú pólitíska leiðsögn sem hefur farið fram undir forustu hæstv. utanríkisráðherra sé ekki nægilega góð, það þurfi að skipta um mann í þeirri brú? Þarf með einhverjum hætti að búa til nýja leiðsögn, einhvern nýjan foringja, einhverja nýja forustu, (Forseti hringir.) kanna með hvaða hætti það sé gert? Þessar spurningar brenna á mínum vörum og ég vildi gjarnan heyra hv. þingmann (Forseti hringir.) svara.