141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég fagna spurningunni. Hún varðar ákveðið lykilatriði. Ég hef sjálfur ásamt hópi fólks, hópi Íslendinga sem líður eins, hafa staðið að því undanfarin tvö ár að reyna að stofna, og höfum nú stofnað, stjórnmálaafl sem ætlar sér að breyta nákvæmlega þessari pólitísku menningu sem ég minntist á í gær.

Og hver er hún?

Það er átakamenning, valdabröltsmenning, sem virðist ókleift að ljúka við fyrir fram ákveðna ferla. Við sjáum þetta í mörgum málum á Íslandi í dag. Okkur er ókleift í þessum sal út af úreltri og úr sér genginni pólitískri átakamenningu að klára mjög mörg lykilatriði í íslensku samfélagi, sjávarútvegsmál, stjórnarskrármálið og núna viðræðuferlið við ESB.

Um hvað snýst það mál? Við ákváðum í þessum sal að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við gerðum það með vönduðu áliti utanríkismálanefndar. Fyrir því var hér frekar skýr meiri hluti. Þetta á ekki að vera flókið. Í kjölfarið hófum við viðræður. Þær hafa gengið ágætlega. Við skipuðum mjög góða viðræðunefnd. Síðan hefur alltaf legið fyrir að þjóðin kýs. Er þetta flókið? Er þetta erfitt? En að hverju verðum við síendurtekið vitni?

Það eru spilaðir leikir með þetta ferli. Það eru uppþot, reyksprengjur, smjörklípur. Stjórnmálamenn af gamla skólanum hér inni, ungir og gamlir, sjá sér leik á borði.

Þjóðin á rétt á því að við stöndum við ákvarðanir okkar og þjóðin á rétt á því að fá að taka upplýsta ákvörðun í þessu. Við ákváðum að leyfa henni það. Það tekur tíma. Ég held að það þurfi róttæka nýja pólitíska menningu og við í Bjartri framtíð ætlum að bjóða upp á hana í næstu kosningum (Forseti hringir.) til að breyta þessu.