141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því á mánudag er einhvers konar sjónarspil. Ég held hins vegar að það sé rangt hjá hv. þingmanni að örlög þessa máls tengist með einhverjum hætti sérstakri átakahefð í stjórnmálum. Ég held að miklu frekar sé um það að ræða að það mál sem hér er til umræðu, Evrópusambandsaðildin, nýtur ekki meirihlutastuðnings á þingi. Ég held að það sé málið. Ég held að það sé ástæðan fyrir því að forusta Samfylkingarinnar í ríkisstjórn ákveður að reyna að létta þingmönnum og ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lífið með því að gefa út svona yfirlýsingu í aðdraganda flokksráðsfundar og landsfundar hjá Vinstri grænum þar sem forustan hlýtur að verða spurð um verk sín í Evrópusambandsmálinu því að þar hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð í ríkisstjórn starfað í beinni andstöðu við yfirlýsta stefnu sína fyrir síðustu kosningar.

Ég held að málið snúist ekki um átakahefð eða neitt slíkt. Málið snýst einfaldlega um að það var farið fram með Evrópusambandsumsókn á þessu þingi án þess að meiri hluti væri fyrir því á þinginu að ganga í Evrópusambandið. Það hefur auðvitað valdið þeim vandræðum í ferlinu sem um er að ræða.

Spurningin er, svo ég beini nú orðum mínu til hv. þingmanna Vinstri grænna: Eru þeir sáttir, hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, við þá skýringu sem haldið hefur verið fram í þessum ræðustól af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því á mánudaginn þýði í rauninni ekki neitt, ferlið haldi bara allt áfram eins og planið var samkvæmt áætlun og að yfirlýsingin frá því á mánudaginn breyti engu? Eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sáttir við það?