141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ætla að blanda mér eilítið í þessa umræðu sem verið hefur í gangi síðustu sólarhringana og snertir Evrópusambandsumsóknina, það leikrit sem búið er að vera í gangi hjá ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum. Þetta túlkunarstríð er enn í fullum gangi og með sérstakri umræðu í þinginu í gær og óundirbúnum fyrirspurnum þar á undan skýrist í rauninni ekkert. Þetta kveikir fleiri spurningar en það svarar.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að Evrópusambandsmálið yrði ekki kosningamál. Þingmenn Samfylkingarinnar segja hins vegar og formannsframbjóðendur að þetta verði kosningamál. Forustumenn Vinstri grænna segja að það hafi verið mikilvægur áfangi í Evrópusambandsmálinu að ná að leggja þetta til hliðar fram yfir kosningar.

Hæstv. forsætisráðherra segir hins vegar að þetta breyti engu, það hafi engin breyting orðið á ferlinu.

Hæstv. innanríkisráðherra segir að ekki sé nægilega langt gengið og að hann vilji fá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið á þessu kjörtímabili.

Hv. þm. Jón Bjarnason segir að sér hafi verið hent út úr utanríkismálanefnd til að þóknast Samfylkingunni.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrímur J. Sigfússon segir að það sé bull og vitleysa.

Virðulegi forseti. Við þetta leikrit síðustu sólarhringana hafa vaknað fleiri spurningar en hefur verið svarað. Það væri fróðlegt ef ríkisstjórnin gæti núna sagt nákvæmlega hvað þetta felur í sér. Hvað er það sem ríkisstjórnin lagði til á ríkisstjórnarfundi? Hvað fela þessi fjögur atriði nákvæmlega í sér? Er mögulegt að ríkisstjórnin geti haft eina skoðun á þessu máli til tilbreytingar?