141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svar hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar kallar á dálitla túlkun. Hv. þingmaður lýsti sinni sýn á það hvernig stjórnmálaumhverfið væri, hvernig umræðurnar færu fram á Alþingi, hvernig umræðurnar færu fram innan ríkisstjórnarinnar o.s.frv. Hv. þingmaður segir að það sé verið að spila leiki, að hlutirnir séu í uppnámi og menn eigi að setja niður deilurnar. Það er ekki sá veruleiki sem við höfum í þessu máli sem snýr að Evrópusambandinu og nú vil ég spyrja hv. þingmann aftur hvort hann telji til dæmis að ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í fyrradag hafi skýrt þessa stöðu, hafi til dæmis gert það að verkum að þetta sé líklegra til að setja niður deilur og framkalla uppbyggilegri umræður.

Ég held að staðan sé óskaplega einföld. Hún er þessi: Ríkisstjórnin fór á sínum tíma af stað með aðildarferli við Evrópusambandið í miklu ósætti. Það ósætti var ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu, það var ekki síður innan stjórnarflokkanna. Það er það mein sem ríkisstjórnin hefur æ síðan glímt við í þessu máli. Það hefur ekki verið fullur einhugur. Eins og málin hafa þróast, ekki síst á Evrópusvæðinu, er augljóst að þetta hlaut að kalla á miklar umræður um þessi mál á Alþingi allt þetta kjörtímabil úr því að málið er ekki komið lengra en raun ber vitni.

Það er staðan sem við höfum í dag. Síðan virtist innan utanríkismálanefndar vera að myndast meiri hluti um að flytja tillögu um að setja þetta mál í frestun þannig að þessum viðræðum yrði ekki haldið áfram. Nú er verið að reyna að koma í veg fyrir að þingvilji nái fram að ganga, að minnsta kosti verði látið reyna á þennan þingvilja, og ég hygg að hæstv. forsætisráðherra hafi metið þetta alveg rétt. Hæstv. forsætisráðherra mat það svo að ekki væri hægt að treysta á að þingviljinn á Alþingi væri sá að halda þessum viðræðum áfram. Þess vegna var reynt að koma í veg fyrir að slík tillaga næði fram.

Ef við viljum bæta umræðuhefðina, ef við viljum einmitt nýta Alþingi til lýðræðislegra ákvarðana um svona stór mál, (Forseti hringir.) á að sjálfsögðu að gefa okkur tækifæri til að ræða þessi mál efnislega og komast að niðurstöðu því að (Forseti hringir.) það er augljóslega óvissa um það hvort í raun og veru sé þingvilji (Forseti hringir.) á bak við þá ákvörðun sem liggur (Forseti hringir.) fyrir núna um aðildarumsókn (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu.