141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Svo ég svari fyrst spurningu hv. þingmanns um afstöðu mína til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar hef ég lýst því yfir að mér finnst þetta vond ákvörðun. Mér finnst þetta ein af þeim ákvörðunum sem þyrla upp ryki í kringum þetta mikilvæga ferli. Mér finnst afskaplega mikilvægt að við reynum að halda dampi. Það er mjög brýnt hagsmunamál þjóðarinnar, vegna þess að við höfum samþykkt þingsályktunartillögu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, að við náum sem bestum samningi. Til þess að við gerum það þurfum við að halda dampi. (IllG: … samningnum.) Við verðum einfaldlega að ná góðum samningi og við erum með góða viðræðunefnd til þess. Þessi ákvörðun er ekki beinlínis til þess fallin að mínu viti.

Svo finnst mér merkilegt hvað það er framandi hugmynd fyrir marga þingmenn hér að maður skuli boða pólitík sem er ekki valdabröltspólitík eða klækjabragðapólitík. Það er til önnur hugmynd um pólitík. Hún er sú að maður fari í pólitík til að reyna að verða að gagni, til að láta gott af sér leiða. Maður fer ekki í pólitík endilega til að hleypa upp ferli sem ákveðið hefur verið, reyna að koma ríkisstjórnum illa eða fella þær. Við sjáum svona kúltúr hér inni og við sjáum andstöðuna við svona kúltúr úti í samfélaginu. Traust til Alþingis hefur minnkað og við sjáum að víðast hvar annars staðar í þjóðfélaginu stundar fólk stjórnunarstörf, markmiðssetningu og annað allt öðruvísi. Ef fyrirtæki væru rekin með svona viðvarandi valdabrölti eins og er hér næðu þau ekki árangri. Þar starfar fólk til að verða að gagni, verða að liði, ná árangri.

Hvernig mundum við þá nálgast þetta tiltekna mál, ESB, með það að markmiði einfaldlega að verða að gagni? Er það þá ekki að taka þingsályktunina alvarlega, hún var ákveðin, reyna að ná góðum samningi (Forseti hringir.) og leyfa svo þjóðinni að kjósa, hv. þm. Pétur Blöndal? Þá getur hún (Forseti hringir.) tekið afstöðu til þinna röksemda. (Gripið fram í.)