141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

úthlutun aflamarks í ýsu á þessu fiskveiðiári.

[15:43]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. málshefjanda, það er þarft að ræða þetta mál og ég vona að það sé ekki við mig að sakast að sú umræða hefur ekki komist á fyrr. Ekki hef ég skotið mér undan því að fjalla um þetta. Þetta hefur verið mikið til umræðu og skoðunar í haust.

Vandinn er sá að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hefur verið niður á við öll síðustu ár. Mikil breyting hefur orðið á frá rúmlega 100 þús. tonna ráðgjöf fiskveiðiárin 2005/2006 til 2007/2008 og niður í þau 32 þús. tonn sem stofnunin lagði til fyrir fiskveiðiárið í ár. Ákvörðun heildaraflamarks hefur svo fylgt þessu að nokkru marki þó að menn hafi að vísu tekið dýfuna hægar niður. Heildaraflamark ársins í ár er 37 þús. tonn, þ.e. 5 þús. tonn umfram ráðgjöf. Rétt er að hafa það í huga.

Ýsustofninn hefur lengi verið sveiflukenndur, það er vel þekkt. Hv. þingmaður og málshefjandi nefndi dæmin þar um á árum áður, svo sem frá aldamótunum þegar veiðin var niður í um 30 þús. tonn eins og við sjáum núna. Það alvarlegasta við ráðgjöf Hafrós er þó það að hennar mat er að stofninn muni minnka áfram þegar litlu árgangarnir, lélegu árgangarnir frá árunum 2008–2011, koma inn í hrygningarstofninn. Við höfum engar betri vísbendingar en þær að nýliðunin hafi verið, því miður, mjög dapurleg og léleg undanfarin ár. Það er sú framtíð sem við þurfum að horfast í augu við jafnvel þótt talsvert sé af fullorðinni ýsu á miðunum og fer ekki fram hjá neinum.

Miðað við þetta eru líkur á að stofninn verði í lágmarki árið 2014/2015 og kominn þá nálægt sögulegu lágmarki og hættumörkum. Hafrannsóknastofnun leggur upp úr því að draga úr líkum á að slíkt gerist og að veruleg hætta skapist. Niðurstöður botnmælinga í haust gefa ekki tilefni til bjartsýni því að þar benda fyrstu vísbendingar til þess að árgangurinn 2012 sé mjög lélegur, einn sá lakasti síðan 1999. Það er líka ljóst að þar með væri tekin veruleg áhætta ef aflamark í ýsu yrði aukið umtalsvert og Hafrannsóknastofnun hefur ekki talið það ráðlegt þó að hún hafi ítrekað fengið á undanförnum mánuðum og missirum beiðnir um það að fara enn og aftur yfir ráðgjöf varðandi ýsustofninn.

Það er sömuleiðis umhugsunarefni að veiðiálagið nú er líklega að 60–70% leyti til á svæðum þar sem aðeins um 30–40% stofnsins halda sig. Það er orðin mikil skekkja í því hvar veiðiheimildirnar eru, hvar veiðiálagið er og því hvernig stofninn dreifist á miðin. Enn vil ég nefna að vottunarferli stendur yfir hvað upptöku aflareglu snertir. Það kom fram hjá málshefjanda að staðan er mjög mismunandi milli aflamarksskipa og krókaaflamarksbáta. Þannig hafa aflamarksskipin veitt um 8 þúsund af tæplega 25 þús. tonna heimildum, en krókaaflamarkshópurinn er þegar kominn umfram sínar úthlutuðu heimildir, hefur að vísu leigt til sín líklega um 1.300 tonn í viðbót og með tilliti til línuívilnunar og millifærslna eru veiðiheimildir þar sennilega um 6.200 tonn á móti afla sem er kominn hátt á fimmta þúsund tonn.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að þetta ástand skapar verulega erfiðleika hjá minni bátum, krókaaflamarksbátunum fyrst og fremst, og erfitt að leysa úr því þar sem leigumarkaðurinn er eins og hann er. Það er mjög erfitt að forðast ýsu í afla á svæðinu frá Snæfellsnesi í vestri og norður um og margir fullyrða að eiginlega sé ómögulegt að koma í veg fyrir að ýsuafli sé upp undir 20% af því sem menn sækja. Þá er auðvitað engum blöðum um það að fletta að ef ekki er hægt að fá veiðiheimildir leigðar eða með öðrum hætti færa þær til er mikil hætta á brottkasti. Það er þar af leiðandi okkar mat að það þyrfti um 3 þús. tonn af ýsuveiðiheimildum til viðbótar til að veiðin gæti gengið eðlilega fyrir sig fyrir þennan hluta útgerðarinnar fram á vorið.

Sveigjanleikinn í fiskveiðistjórnarkerfinu hefur minnkað með aukinni veiðiskyldu, takmörkunum á flutningi milli ára og tegundatilfærslum. Fyrir því hafa staðið góð rök en það hefur hins vegar áhrif á það núna hvernig kerfið sjálft innan gildandi laga getur brugðist við.

Spurningin er: Hvað er hægt að gera?

Í fyrsta lagi að gera ekki neitt og þreyja þorrann og góuna sem auðvitað getur leitt til þess að menn hreinlega verða að stöðva veiðar um tíma á meðan þetta ástand varir á miðunum.

Í öðru lagi er sá möguleiki til staðar að útgerðin reyni innan sinna vébanda að miðla þessu milli sín þannig að þeir sem eru aflögufærir innan aflamarkshópsins bjóði hinum veiðiheimildir til leigu. Hugsanlega mætti liðka fyrir þessu með lagabreytingum.

Í þriðja lagi hefur auðvitað sá möguleiki komið upp að bæta einfaldlega við kvótann. Það hefur lítinn tilgang í núverandi kerfi ef því yrði dreift jafnt á alla. Þá yrði að vera sértæk regla sem stýrði viðbótinni til þess hluta flotans í einhverjum skömmtum sem mesta þörfina hefur fyrir.

Í fjórða lagi höfum við skoðað möguleikann á því að rýmka (Forseti hringir.) tímabundið reglur um VS-afla fyrir þann hóp útgerðarinnar sem er í mestum vandræðum. Ég hef áhuga á að ræða þessa möguleika við aðila innan greinarinnar, taka á því einn snúning enn (Forseti hringir.) og bera mig svo saman við atvinnuveganefnd um það hvort hugsanlega þarf að liðka fyrir einhverjum slíkum aðgerðum með lagabreytingu.