141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

úthlutun aflamarks í ýsu á þessu fiskveiðiári.

[15:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hvort hann telji ástæðu til að endurskoða úthlutun á ýsukvóta og hvort skoða eigi hvaða áhrif úthlutunin hefur á einstaka útgerðarflokka. Hv. þingmaður veltir einnig fyrir sér áhrifum úthlutunar á einstök byggðarlög og hvort hún sé í samræmi við veiðina á miðunum.

Þeir sem stunda sjó segja að mikið sé af ýsu og hún sé um allan sjó kringum landið. Svo virðist, segja þeir, sem ýsan hafi með hlýnun sjávar breytt um hegðun og farið einnig í auknum mæli vestur og norður fyrir land. Nú ættu því viðmiðin við ákvörðun kvótans að vera önnur en áður. Línubátar fá þá fiska sem bíta á svo dæmi sé tekið. Ef mikið er af ýsu í sjónum getur það gerst að ýsan bíti á en stórum hluta aflans verði hent ef veiðiheimildir eru ekki í samræmi við magnið. Ýmislegt bendir til að ástæða sé til að endurskoða veiðiheimildirnar. Ég mæli með því að kannað verði vandlega hvort hegðun ýsunnar og lifnaðarhættir gefi tilefni til endurskoðunar á veiðiheimildunum en ég mæli vitaskuld með því að farið verði eftir ráðgjöf sérfræðinga því að ekki viljum við ganga á stofninn með eyðileggingu til lengri tíma. Þó er ljóst að gefa verður ýsuveiðum sérstakan gaum á næstu vikum.