141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

úthlutun aflamarks í ýsu á þessu fiskveiðiári.

[16:02]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Það er hárrétt sem fram kom hjá málshefjanda. Þetta er ekki óþekkt vandamál. Fyrir fimm til sjö árum síðan sneri það alveg öfugt og þorskurinn var nánast sóttur sem meðafli í viðleitni til að ná öðrum tegundum. Skipstjórar fengu fyrirmæli um að sækja ekki beint í þorsk en reyna að ná öðrum tegundum eins lengi og mögulegt var og fá svo kannski að taka smáslatta af þorski í lokin í túrnum. Það er kannski auðveldara á sumum öðrum veiðarfærum en þeim sem hér eiga mest við.

Venjulega hefði mátt búast við því að draga færi að úr vandamálinu eftir því sem lengra liði á veturinn og sjór kólnaði, en það hefur ekki gerst enn að minnsta kosti þó að einhverjar vísbendingar séu um að þess gæti aðeins fyrir vestan en alls ekki fyrir norðan, eins og í Húnaflóanum. Haldi það áfram munu afleiðingarnar af því fara versnandi, samanber það sem ég áður sagði, að svo gæti farið að menn yrðu hreinlega að stöðva sjóróðra um skeið eða færa sig til milli landshluta eða hvað það nú gæti orðið. Ég held þó að það hafi ekki verið annað að gera en að bíða og sjá til fram undir áramótin og sjá til hvernig haustið þróaðist. Auðvitað var staðan rýmri framan af árinu en nú er þetta að verða meira aðkallandi og knýjandi eftir því sem gengur á þær litlu veiðiheimildir sem eftir standa, sérstaklega hjá krókaaflamarkshópnum. Þá koma auðvitað þær leiðir til greina sem ég nefndi en það er rétt að árétta að svigrúmið til aðgerða innan gildandi laga og að þeim óbreyttum er nánast ekkert. Það eina sem menn geta látið sig hafa er að auka kvótann innan ramma laganna og þá dreifist hann hlutfallslega jafnt á alla sem veiðiheimildir hafa. Það mun sáralítið bæta stöðuna fyrir þá sem litlar ýsuveiðiheimildir hafa og eru búnir með þær.

Komi til þess held ég að óumflýjanlegt sé að fara í sértækar ráðstafanir og breyta þá lögum í leiðinni. Þess mun þurfa eigi að nota VS-aflaleiðina, það gæti þurft lagabreytingar til að liðka til varðandi skipti milli aflamarkshópsins og krókaaflamarkshópsins, ef menn vildu reyna þá leið, að greiða götu þess og auðvelda það að menn gætu skipt þar á þorski og ýsu. Eins mundi það gerast ef við létum okkur hafa það að auka eitthvað kvótann og þyrftum þá lögheimildir til að beina því sérstaklega að þeim hópi sem er í mestum vandræðum. En því heiti ég að þetta verður skoðað af fullri alvöru núna á næstunni.