141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:05]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Í frumvarpi þessu er lagt til að II. kafli laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, falli brott. Þar er um að ræða ákvæði um greiðslumiðlun sem greina má í tvær deildir; annars vegar greiðslumiðlun fjár, sem nemur 8% af öllu hráefnisverði sjávarafurða stærri báta samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, og hins vegar greiðslumiðlun fjár sem nemur 8,4% af hráefnisverði sjávarafla smábáta samkvæmt 6. gr. laganna.

Samkvæmt lögunum skal ráðstafa þessu greiðslumiðlunarfé að hluta til lífeyrissjóðanna, að hluta til greiðslu trygginga, að hluta til stéttarfélaga launþega og að hluta til hagsmunasamtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, það er Landssamband íslenskra útvegsmanna og Landssamband smábátaeigenda.

Um ráðstöfun og skiptingu greiðslumiðlunarfjárins fer svo samkvæmt ákvæðum laganna og er fjallað um það nánar í athugasemdum við frumvarpið. Þessi óundanþæga skylda til greiðslu félagsgjalda til hagsmunasamtaka útgerðaraðila án tillits til félagsaðildar sem gildandi lög mæla fyrir, hefur lengi sætt nokkurri gagnrýni. Má þar fyrst nefna álit umboðsmanns Alþingis frá 12. apríl 2002, en þar var talið að verulegur vafi léki á því að greiðsluskylda samrýmdist rétti manna til að standa utan félaga, samanber 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Árið 2005 tók síðan til starfa starfshópur nokkurra ráðuneyta undir forustu starfsmanns forsætisráðuneytisins sem ætlað var að taka til skoðunar viðbrögð við álitinu, þ.e. áliti umboðsmanns Alþingis, og huga jafnframt að því hvort sömu sjónarmið ættu við um gjaldtöku í þágu félagasamtaka í öðrum atvinnugreinum.

Í skýrslu starfshópsins frá 2006 voru gerðar tillögur um mögulegar breytingar á ýmsum lögum, þar á meðal lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, en engu að síður var ekki ráðist í breytingar á lögunum á þeim tíma.

Með dómi Hæstaréttar frá 18. október 2010 var hins vegar skorið úr um allan vafa að skylda til greiðslu félagsgjalda til hagsmunasamtaka útgerðaraðila, eins og á stóð og stendur í þessu máli, væri í bága við rétt manna til að standa utan félaga, samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Megintilgangur frumvarpsins, eins og fyrri frumvarpa sem komið hafa fram, er að bregðast við þeim dómi og er hann ítarlega reifaður í athugasemdum með frumvarpinu. Verði frumvarpið að lögum munu lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun samþýðast réttarvernd 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og eins og áður sagði kom fram frumvarp á 139. löggjafarþingi sem var meint til þess að bregðast við dómnum en var þá ekki útrætt.

Þetta frumvarp gengur einfaldlega út á það að ákvæðin um greiðslumiðlun á þessum grunni falli brott. Frumvarpið var nú reyndar lagt fram það snemma í haust að gildistakan var fyrirhuguð 1. janúar 2013, það þarf eitthvað að líta á það, frú forseti og hv. þingmenn, en það tafðist. Ekki var samkomulag um að mæla fyrir málinu fyrir jól þannig að það stendur eins og það var fram lagt að þessu leyti.

Hins vegar er sett inn í frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um tímabundna skyldu fram til 1. janúar 2016 til greiðslumiðlunar á allt að 0,5% af samanlögðu verðmæti afla smábáta inn á reikning samtaka útgerðaraðila. Sá er þó reginmunur á því bráðabirgðaákvæði og núgildandi lögum að þar er um valkvæðan kost að ræða. Til greiðslumiðlunar kemur einungis ef útvegsmaður eða samtök útgerðaraðila fyrir hans hönd, samkvæmt umboði, óska eftir því að greiðslumiðlun fari fram. Með þeirri tillögu sem bráðabirgðaákvæðið hefur að geyma er leitast við að koma til móts við Landssamband smábátaeigenda sem eru langstærstu hagsmunasamtök eigenda smábáta. Landssambandið hefur lagt ríka áherslu á að greiðslumiðluninni verði með einhverjum hætti fram haldið. Þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að öll önnur greiðslumiðlun, þ.e. greiðslur til stéttarfélaga, tryggingagjalda og lífeyrissjóða, falli niður við gildistöku frumvarpsins og að um þær greiðslur, til slíkra þarfa, fari að almennum lögum sem gilda um viðkomandi málefni, þ.e. að við taki lög um iðgjöld í lífeyrissjóði og svo framvegis.

Í fylgiskjali er að finna allrækilega reifun á málinu og forsögu þess sem er nokkur. Ég hygg að ýmsir þingmenn í salnum séu því nokkuð vel kunnugir og þeim hnútum sem í þeim eru, en það er, eftir nokkra yfirlegu, sú tillaga sem nú er lögð til til að reyna að komast út úr þessu ástandi. Það verðum við að gera, það er ómögulegt að búa við það árum saman eftir þennan fallna hæstaréttardóm. Ég held að okkur beri skylda til að reyna að finna skástu leiðina út. Ég tel að þetta sé ásættanlegt fyrir alla aðila og þar með talið Landssamband smábátaeigenda sem fær þarna vissa aðlögun. Ef vel og skipulega er að því unnið ætti það ekki að þurfa að valda mikilli röskun fyrsta kastið á meðan menn undirbúa sig svo undir framtíðina þar sem engin lög gilda að þessu leyti önnur en hin almennu sem við eiga á hverju sviði.

Frú forseti. Að öðru leyti vísa ég til athugasemda sem fylgja frumvarpinu og legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar. (Gripið fram í.)