141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég vil bera upp tvær spurningar við hæstv. ráðherra: Er bráðabirgðaákvæðið nægilega skýrt og hafa stjórnskipunarsérfræðingar gefið einhvers konar álit á því hvort það gengur nægilega langt til að samrýmast ákvæðum 74. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að standa utan félaga? Hér er kveðið á um að menn þurfi alla vega að borga inn á reikning. Á þá að túlka það þannig að þeir standi utan við félög?

Síðari spurningin, sem ég held reyndar að falli nú ekki beint undir þetta mál, varðar lög um skiptaverðmæti. Hefur hæstv. ráðherra í hyggju að leggja fram frumvarp sem tryggir betur skiptingu verðmæta fiskafla gagnvart sjómönnum, og þar af leiðandi að fiskur sem ekki er landað í vinnslu hjá útgerðum fari á markað þannig að skýrt sé hvert raunverulegt verðmæti aflans er? Það sé þá gagnsæi í því hvert raunverulegt verðmæti fisksins er, sem sjómenn eiga að fá greitt fyrir, eins og samtök sjómanna hafa kallað eftir.