141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál tengist málum eins og iðnaðarmálagjaldinu sem Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi ógilt af því að það bryti félagarétt, þ.e. frelsi manna til að ganga í félög. Þetta tengist líka búnaðargjaldinu þar sem mönnum er gert að greiða í ákveðin samtök. Þetta tengist líka skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélags hvort sem þeir vilja vera í því eða ekki. Þetta tengist enn fremur stjórnarskránni vegna þess að þetta er stjórnarskrárbrot en ekki lagabrot. Þar sem við erum nú mikið upptekin núna af því að semja nýja stjórnarskrá væri kannski ráð að fara eftir þeirri sem er til staðar, fylgja henni. Til dæmis stendur í 77. gr., með leyfi frú forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Þarna var ekki einu sinni stjórnvöldum falið þetta, nei, viðskiptabönkum var falið að innheimta skattinn og leggja hann á. Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar um að skattamálum skuli skipað með lögum var líka brotið.

Nú vil ég spyrja hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra — ég er að læra þetta orð, frú forseti, það er dálítið erfitt — af því að hann hefur líka yfir landbúnaðinum að segja hvort ekki sé næsta mál á dagskrá að afnema búnaðargjaldið sem er nákvæmlega eins. Það er lagt á bændur og ráðstafað til búnaðarsamtaka sem eru væntanlega frjáls félagasamtök, ég veit það samt ekki, þetta eru eins konar opinber stéttarfélög eins og gerðist í Sovét, en það gerist ekki lengur. Er ekki næsta mál að afnema búnaðargjaldið og má ekki gauka því að hæstv. fjármálaráðherra að hætta að innheimta félagsgjöld af opinberum starfsmönnum sem ekki vilja vera í stéttarfélögum?