141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvaða augum ég líti stjórnarskrána og sérstaklega það ákvæði hennar sem lýtur að félagafrelsinu. Svarið við því er augljóst: Ég virði stjórnarskrána og ég virði þann rétt í henni sem mönnum býðst varðandi félagafrelsið. Það er eiginlega engu við það að bæta.

Það sem ég fór einfaldlega yfir í ræðu minni er það hvernig þessi mál hafa þróast. Á sínum tíma voru lögin um greiðslumiðlun sett á ákveðnum forsendum, eins og ég fór yfir. Þá var það talið til hagsbóta fyrir sjómenn, ekki síst, með því að tryggja að greiðslur vegna trygginga og lífeyrissjóða bærust eins og þær ættu að gera. Menn töldu hagræði af þessu á sínum tíma. Síðan hefur margt breyst, bæði viðhorf manna og lagaumhverfið, stjórnarskrárumhverfið að ýmsu leyti, og ekki síður það sem ég rakti áðan, að það sem til dæmis var á árinu 2005 talið standast íslensk lög varðandi iðnaðarmálagjaldið er ekki talið gera það í dag á grundvelli dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er líka greinilegt að Hæstiréttur er farinn að taka tillit til hans eins og kemur fram í dómnum sem lýtur að greiðslumiðluninni sjálfri.

Það blasti við að þessu leytinu að þetta fyrirkomulag gat ekki gengið upp og þess vegna urðum við að bregðast við. Ég er hins vegar eindregið þeirrar skoðunar að það sé til heilla fyrir samfélagið að hér séu hagsmunasamtök. Auðvitað eiga þau ekki að hafa einokunarstöðu, eiga ekki að geta haft kverkatak á samfélaginu, en ég er eindregið þeirrar skoðunar að hagsmunasamtök eigi ekki bara rétt á sér heldur séu nauðsynleg í fjölræðis- og lýðræðissamfélagi.