141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

ökutækjatryggingar.

439. mál
[17:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég hafi heyrt rétt að hæstv. ráðherra hafi sagt að fimm þúsund ökutæki væru á götunni vantryggð eða ótryggð, vegna þess að ég ætla að gera athugasemd við það. Ég spyr hvort það sé ekki mikill áfellisdómur fyrir stjórnsýsluna að svo mörg ótryggð ökutæki séu í umferð. Nú veit ég að tryggingaverndin er tryggð en hún verður að sjálfsögðu greidd af hinum sem hafa allt í lagi með sín tæki. Mér finnst mjög slæmt að heyra að í umferð séu ökutæki sem tryggingar eru ekki greiddar af og hugsanlega sleppi eigendur þeirra ef ekki næst í þá ef þau valda tjóni. Það er þá að sjálfsögðu greitt af öðrum sem standa sína plikt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta sé ekki ákveðin ádeila á stjórnsýsluna.