141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

ökutækjatryggingar.

439. mál
[17:02]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, hv. þingmaður heyrði rétt, ég mun hafa tekið svo til orða, samanber þá framsöguræðu sem ég er hér með í höndunum, að í umferð væru yfir fimm þúsund ökutæki óvátryggð miðað við stöðuna í janúarmánuði fyrir ári og ásamt því að vera óvátryggð væri stór hluti þessara ökutækja jafnframt óskoðaður eðli málsins samkvæmt þar sem vátrygging er forsenda skoðunar.

Ég vona að réttara orðalag sé að segja: Á skrá eru yfir fimm þúsund óvátryggð ökutæki og flest þeirra óskoðuð. Þetta er þá fjöldinn sem hefur ekki verið afskráður, telst til bílaflotans, en ekki má leggja þá merkingu hér í að þessi floti sé allur á götunum og í umferð dagsdaglega í þeim skilningi að verið sé að keyra hann. Það held ég að sé alls ekki. Eftirlit hefur verið hert verulega með þessu, því er t.d. fylgt fast eftir að ökutæki séu skoðuð og klippt af þeim númerin ef svo er ekki gert og liggja talsverð viðurlög við eins og kunnugt er. Ég hygg þar af leiðandi að afar lítið sé um að hluti þessa bílaflota sé dagsdaglega í brúki, en auðvitað geta verið dæmi um slíkt eins og kunnugt er.

Það er að sjálfsögðu ólíðandi og má ekki gerast að ökutæki sem ekki eru tryggð þannig að valdi þau tjóni, t.d. líkamstjóni, eða óhöppum í umferðinni komi bætur fyrir o.s.frv. Það hefur mikið verið lagt í það á undanförnum árum með margvíslegum ráðstöfunum eins og þeim sem ég hef nefnt að uppræta það að ökutæki séu í notkun úti í umferðinni án þess að fullnægja skilyrðum að þessu leyti.

Ég skal kanna þetta mál nánar en ég vona að þetta sé skýringin og að réttara orðalag sé kannski að tala hér um yfir fimm þúsund ökutæki á skrá.