141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

ökutækjatryggingar.

439. mál
[17:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt, ég svaf aðeins á verðinum og gleymdi að biðja um andsvar en ætlaði að koma almennum athugasemdum á framfæri. Ég er að hugsa um 4. gr. frumvarpsins. Þegar eigandi ökutækis, hvort sem það er einstaklingur eða björgunaraðili, kemur að bíl sem þarf hjálp og draga þarf þann bíl eða bjarga viðkomandi þá ber sá sem kemur til hjálpar alla ábyrgð komi eitthvað fyrir, ef tjón verður eða eitthvað slíkt. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé réttur skilningur að það sé þannig. Ef það er þannig finnst mér það galli, því að það kann að vera að það dragi úr vilja fólks og dragi úr hvatanum til að hjálpa nágrannanum út úr skafli eða náunganum sem er utan vegar einhvers staðar, hvað þá þegar er komið er að þeim sem reka dýr björgunartæki. Þetta held ég að þurfi að skýra og ef þetta er réttur skilningur hjá mér mundi ég hvetja menn til að breyta ákvæðinu eða finna á því einhverja lausn.

Í 7. og 8. gr. er talað um vantryggingagjald sem getur numið ákveðinni upphæð. Þetta er alltaf spurning eins og í þessu tilviki: Er ekki einfaldlega betra að taka viðkomandi bíl af skrá og koma honum úr umferð en að upp hlaðist miklar skuldir? Án þess að ég hafi undir höndum tölfræðiupplýsingar um þetta ímynda ég mér að margir þeirra sem ekki greiða tryggingarnar sínar geri það vegna þess að þeir hafi ekki efni á því, þeir þurfi að nota fjármunina í eitthvað annað. Þá eru sektarupphæðir eða vextir upp á 250 þúsund að hámarki ekkert sem bætir stöðuna, held ég. Ég held einfaldlega að hvatinn til að greiða verði meiri ef viðkomandi á á hættu að missa ökutækið.

Það voru fyrst og fremst þessar vangaveltur varðandi 4. gr. og ábyrgðina sem virðist hvíla á þeim sem á tæki sem notað er til að draga annað tæki, skaðabótaskyldan virðist vera algjörlega hjá viðkomandi miðað við þetta.