141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[17:09]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Frumvarp þetta varðar fyrst og fremst stærðarmörk krókaaflamarksbáta og tiltekin ákvæði um strandveiðar og leggur til breytingar á meðferð þessara mála innan yfirstandandi fiskveiðiárs.

Hér er sem sagt um að ræða minni háttar breytingar á þessum lögum, annars vegar til þess að skýrgreina mörk milli báta sem hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki, sem gjarnan er kallað „krókakerfið“, og þeirra sem hafa almennt leyfi til veiða með aflamarki og svo koma þarna inn þessar tilteknu minni háttar breytingar á reglum um strandveiðar.

Það er svo, frú forseti, að frá árinu 2002 hafa lög um stjórn fiskveiða kveðið á um að krókaaflahlutdeild verði aðeins flutt á bát sem er undir 15 brúttótonnum að stærð. Á hinn bóginn er ekki kveðið á um það beinum orðum í lögunum hvaða stærðarmörk séu á krókaaflamarksbátum sem slíkum. Það hefur leitt til þess að lögin hafa verið túlkuð þannig að þó svo að þessar reglur gildi um flutning veiðiheimilda á bát í krókakerfinu, og hann megi eingöngu vera 15 brúttótonn að stærð eða þar undir, hafa lögin verið túlkuð þannig að þó svo að bátur sé stækkaður þannig að hann verði stærri en 15 brúttótonn verði krókaaflahlutdeild hans ekki felld niður af þeim sökum þótt það girði vissulega fyrir að á hann verði færð aukin krókaaflahlutdeild eftir það. Þetta er óvenjuleg og óheppileg staða og leiða má að því sterk rök að þetta hafi ekki verið það sem fyrir löggjafanum vakti þó að svona hafi verið frá þessu gengið. Staðan er sú í augnablikinu, eða hefur að minnsta kosti verið fram undir þetta, og var þegar þetta frumvarp var sett saman, að það tekur í reynd aðeins til eins aðila eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpinu, og menn höfðu ekki séð þetta fyrir þegar unnið var að setningu þessara lagaákvæða um krókaaflamarksbáta á sínum tíma.

Því er það svo að verði frumvarpið að lögum mun þeim aðila í eintölu að tala, að minnsta kosti miðað við stöðuna sem hún var á haustmánuðum, bjóðast að leysa úr þessu með því að færa aflaheimildir sínar úr krókaaflamarkskerfinu og yfir í aflamarkskerfið sem er þá að uppistöðu til fiskveiðistjórnarfyrirkomulagið fyrir báta sem eru stærri en þessi nefndu 15 brúttótonn. Um þetta hefur verið, held ég, sæmileg sátt á Alþingi alveg frá þessum tíma, árinu 2002, að afmarka stærð þessa bátaflota sem hefur þá sérstöðu að veiða á krókum við 15 tonn og að halda kerfunum aðskildum.

Þá er í frumvarpinu lagt til að í stað fastákveðins heildarafla til strandveiða á hverju ári eins og verið hefur — og er í dag 8.600 tonn — sé ráðstafað sérstakri hlutdeild, fastri hlutdeild af heildarafla þorsks og ýsu, nákvæmlega því sama í magni talið og er á yfirstandandi fiskveiðiári í þorski og ufsa til strandveiða og verði þannig eftirleiðis. Ég held að vel fari á því, í ljósi reynslu undanfarinna ára, að ganga frá því hver verði þá nákvæmlega hlutdeild þessa veiðifyrirkomulags, þessa neðsta lags, ef svo má að orði komast, í fiskveiðunum og skjóta styrkari stoðum undir það og standa þá ekki í því árlega að þurfa að ákveða það í magni heldur fylgi það veiðinni eins og hún er á hverjum tíma miðað við hina föstu hlutdeild í þeim tveimur megintegundum sem bera uppi strandveiðarnar.

Einnig er langt til í frumvarpinu að heimilað verði að setja fyrirmæli í reglugerð um tiltekinn lágmarksdagafjölda fyrir veiðitíma hvers skips á strandveiðum í mánuðunum maí og júní og í því skyni gagngert að auka öryggi við strandveiðar. Hugsunin er sú að þeir geti þá sem það kjósa valið tiltekinn fastan lágmarksdagafjölda fyrir vormánuðina þegar að breyttu breytanda má ætla að veður sé rysjóttara en þegar kemur inn á sumarið og hagað sinni sókn í samræmi við það. Því er ekkert að neita að einn af þeim þáttum sem menn hafa haft áhyggjur af í samkeppniskerfi eins og strandveiðifyrirkomulagið vissulega er er sá að menn freistuðust til að sækja sjóinn jafnvel í fullrysjóttum veðrum í kapphlaupi um að ná sínu magni áður en veiðiheimildir í pottinum væru búnar innan hvers mánaðar og á hverju svæði. Nú má ekki oftúlka heldur eða ganga of langt í túlkunum í þessa átt því að sjálfsögðu leysir mismunandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnar skipstjórnendur aldrei undan þeirri ríku ábyrgð sem á þeirra herðum hvílir varðandi eigið öryggi og annarra sem með þeim kunna að vera og ég er alls ekki að halda því fram að svo sé. Vissulega hafa menn haft af þessu áhyggjur og þær eru skiljanlegar en sem betur fer hefur þetta í það heila tekið gengið vel og stóráfallalaust þessi sumur sem við höfum verið að þróa og þroska fyrirkomulag strandveiðanna og vonandi verður svo áfram.

Loks eru í frumvarpinu einnig sett inn nánari og skýrari ákvæði hvað varðar eignarhald á fiskiskipum á strandveiðum gagngert til að sporna við því að sömu aðilar geti gert út eða átt aðild að fleiri en einum strandveiðibáti enda má ljóst vera að það mundi stríða algjörlega gegn markmiðunum með þessu fyrirkomulagi ef þar færi að eiga sér stað samþjöppun og tilteknir aðilar færu að gera út marga báta. Það er nauðsynlegt að skerpa á lagaákvæðum hvað þetta varðar því að í ljós hefur komið að svigrúm löggjafans að óbreyttum texta í lögum til að setja þessu skorður, t.d. í reglugerð, er takmarkað.

Allra síðast er lítið ákvæði að finna í frumvarpinu um að kveðið verði skýrt á um bann við að halda úr höfn á strandveiðar fyrr en eftir klukkan 12 á hádegi næsta mánudag eftir sjómannadag. Væri þá um sama fyrirkomulag að ræða og aðrir hlutar flotans búa við og er reist á fyrirmynd í 1. mgr. 2. gr. laga um sjómannadag. Fer vel á því að einnig þessi hluti sjómannastéttarinnar og útgerðarinnar haldi þannig sjómannadaginn hátíðlegan og leggi af stað á miðin á sama tíma og aðrir ef svo ber undir.

Í fylgiskjali með frumvarpinu er að finna hefðbundna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins og ég þykist vita að hún geri ekki ráð fyrir því að samfara þessu verði einhver mikill kostnaður enda ætti ekki að vera nein ástæða til slíks.

Að öðru leyti vísa ég til athugasemda með frumvarpinu þar sem gerð er nánari grein fyrir efni þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar. Eins og ég nefndi snýr þetta að lítils háttar breytingum á fyrirkomulagi þessara mála innan yfirstandandi fiskveiðiárs sem mjög æskilegt væri að taka á sem fyrst. Ég bind því góðar vonir við að hv. atvinnuveganefnd taki þetta mál nú strax til skoðunar og það fái farsæla afgreiðslu á þessu þingi. Æskilegt er að bæði meginefni frumvarpsins, það sem snýr að afmörkun krókaaflakerfisins og stærðarmarkanna þar og eins varðandi strandveiðarnar sem fara í hönd í vor, verði sem fyrst að lögum. Ég bind vonir við að svo verði.