141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[17:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans um frumvarp sem einhver kynni að segja að liti sakleysislega út en er að sjálfsögðu töluvert innihald í.

Þegar lög og reglugerðir um smábáta, þá báta sem hér um ræðir, eru skoðaðar er athyglisvert að talað er um metra, miðað er við 15 metra sem mestu lengd o.s.frv. Ég held því að fullyrða megi að rökrétt sé að skoða hvort ekki sé rétt að breyta frumvarpinu og tala um metra og miða reglurnar þá við mestu lengd þeirra skipa sem um ræðir eins og komið hefur fram. Ég held að það muni leysa töluvert margt. Ég held að það muni meðal annars leysa þær áhyggjur sem menn hafa haft af öryggismálum og bæta aðstöðu að einhverju leyti hjá þeim sem vinna um borð í skipunum. Við höfum séð að sumir þessara báta eru með glussaslöngur aftur úr skutnum til að spara rými inni í bátnum og ákveðið óöryggi fylgir því ef slöngurnar standa aftur úr. Ef slanga fer í sundur er erfiðara að gera við og annað. Ýmis atriði af þessu tagi mundu væntanlega breytast ef allt þetta væri byggt inni í skipinu.

Ég hef ekki áhyggjur af því sem ætla mætti, eins og kom fram áðan, að bátarnir yrðu 15x15 metrar eða eitthvað slíkt að stærð. Að sjálfsögðu mætti setja einfaldar reglur um það hversu breiðir þeir gætu verið eða halda í einhver viðmið sem eru til staðar í því.

Það er mjög athyglisvert fyrir leikmann eins og þann er hér stendur að lesa verklagsreglur Siglingastofnunar um þann búnað sem er á þessum skipum í dag. Ég verð að viðurkenna að það tók mig tíma að kynna mér hvað þetta væri allt, þá tækni sem um er að ræða, skutgeymar, síðustokkar, stýriskassi o.s.frv. Það er mikil tækni komin í þessi skip, það verður að segjast eins og er. Allt hefur þetta hins vegar sinn tilgang. Það er bara eðlilegt að lög og reglur fylgi eftir breytingum á tæknibúnaði og breytingum á skipunum og breytingum er varða það hvernig menn geta notað þessi tæki. En það var engu að síður athyglisvert að læra hvernig þessi skilgreining er öll til staðar. Einhverjir kynnu að fullyrða að með því að færa þetta allt yfir í 15 metra mundi það leysa af hólmi ýmsar slíkar túlkanir eða reglur sem menn eru að fara eftir, hvernig á til dæmis að smíða skutgeymi og annað. Þetta er allt til að læra af, það er einfaldlega þannig.

Það er nokkuð mikið á sig lagt, finnst mér, ef sú breyting sem verið er að gera er að einhverju leyti gerð til að leysa vandamál tengt þeim eina aðila sem hér er rætt um. Með því að fara með þetta í 15 metra fæ ég ekki annað séð en það leysist um leið sjálfkrafa og komi í veg fyrir að fleiri fylgi á eftir, höfði mál eða eitthvað slíkt út af því að þessi aðili fær lausn á sínum málum.

Ég tek líka undir það sem kom fram áðan að eftir því sem maður hefur náð að kynna sér hlutina þá er í þeim norrænu reglum sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vitnaði í áðan talað um 15 metra. Það er verið að tala um metrakerfið. Það kemur líka fram í athugasemdum með frumvarpinu að einfaldara kynni að vera að nota aðra viðmiðun en þarna er um að ræða, það er gefið í skyn. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Vekja má athygli á því að reglur um mælingu á stærð þeirra“ — þ.e. nýsmíðaðra krókaaflamarksbáta — „eru séríslenskar og ef til vill óheppilegar sem viðmiðun innan fiskveiðistjórnarkerfis.“

Það er alveg ljóst að uppi eru miklar efasemdir um að þetta sé rétt aðferðafræði sem þarna er verið að beita.

Ég minntist á áðan að eðlilegt sé að fylgja tækniþróun og kröfum sem gerðar eru í þessari atvinnugrein og eðlilegt að það sé gert. Það er þá um leið eðlilegt að þær viðmiðanir sem við setjum séu með þeim hætti að þeir sem eru í greininni þurfi ekki að fara í einhverjar æfingar til að leysa úr tæknivandamálunum. Það þýðir að sjálfsögðu að mönnum gæti dottið eitthvað nýtt í hug en þá er alla vega búið að festa á einhverjum stað viðmiðun sem tekur á flestum þessum vandamálum, að ég held.

Mig langar að koma að því sem snýr að strandveiðunum. Þegar strandveiðarnar voru settar á voru höfð uppi ýmis varnaðarorð. Varað var við því að mikið kapphlaup yrði í þessum veiðum og það kom á daginn. Varað var við því að menn kynnu að ráðast í óhóflegar fjárfestingar út af þessum veiðum og það kom líka á daginn. Varað var við því að aðilar sem eru ekki atvinnumenn í þessari grein — ég ætla að leyfa mér að kalla þá það — kynnu að fara af stað. Það hefur sýnt sig líka að einstaklingar sem eru alls ótengdir sjávarútvegi nýta sér strandveiðikerfið til að láta drauma sína rætast. Það hefur líka sýnt sig að þeir sem seldu sig út úr fiskveiðikerfinu með miklum hagnaði hafa keypt sér stóra og kraftmikla báta til að stunda strandveiðar o.s.frv. Mér hugnast því illa, ef ég skil þá meiningu sem lögð er fram í frumvarpinu, að festa í sessi þann hluta sem á að fara í strandveiðarnar. Nú er talað um að ákveðin prósentutala af heildaraflanum eigi að fara í strandveiðar af þorski og ufsa. Ég held að það væri skynsamlegra að halda þessu þannig áfram að þetta væri ákvörðun á hverju fiskveiðiári.

Með því að festa þetta sannast þau viðvörunarorð sem við höfðum mörg uppi í þessum ræðustól um að hér væri fyrsta skrefið í því að búa til nýtt kerfi innan fiskveiðistjórnarkerfisins. Það er að koma á daginn, verði það niðurstaðan að verið sé að festa þetta með þessum hætti. Kannski það hafi verið markmiðið allan tímann að gera það, að festa kerfið í sessi. Ég held að það sé þá hreinlegt að tala um það þannig að menn velkist ekki í vafa um það. Einhver kann að segja að þetta sé lítill hluti af þeim afla sem verið er að draga á land í dag. Væntingar standa að sjálfsögðu til þess að þessi afli aukist, að við munum geta veitt meira og skapað meiri gjaldeyri og tekjur. Þá stækkar þessi pottur væntanlega jafnóðum. Það er því að mörgu að hyggja í þessu.

Ég vona að atvinnuveganefnd leggist mjög vandlega yfir það, hvort þetta sé breyting sem vert er að fara í. Ég hef miklar efasemdir um það en að sjálfsögðu eru einhverjar takmarkanir á þessu eins og verið hefur. Engu að síður túlka ég frumvarpið þannig að nú eigi að ganga alla leið og festa í sessi nýtt kerfi innan okkar fiskveiðistjórnarlaga og -kerfis.

Hægt væri að eyða miklum tíma í að fara í gegnum réttlætingu fyrir því að gera þetta eða gera þetta ekki. Ég ætla ekki að gera það núna. Það kann að vera að ég fái tækifæri til þess síðar. Það væri líka hægt að eyða miklum tíma í að stúdera þær flóknu reglur sem gilda um breytingar á bátum og skipum í dag. Ég ætla ekki að gera það heldur. Það yrði til þess að lengja umræðuna allverulega og gera hana mjög undarlega.

Ég hvet atvinnuveganefnd til að skoða vandlega hvort ekki sé rétt að nota metraviðmiðunina, breyta afmörkun í 15 metra, skoða þá um leið hvort setja þurfi skýrari reglur varðandi breidd skipanna. Ég hvet líka til að menn skoði mjög vandlega það sem mér sýnist að sé tilhneigingin hér, eins og þetta er lagt fram, þ.e. að festa strandveiðikerfið kirfilega í sessi.