141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[18:04]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum fyrir málefnaleg innlegg í hana og þau sjónarmið sem voru reifuð og ég geng út frá að hv. atvinnuveganefnd muni öllsömul skoða, þar á meðal það sem hér var talsvert gert að umræðuefni, skipatæknilegt mál má segja. Það liggur við að menn þurfi að hafa lært skipaverkfræði til að vera almennilega gjaldgengir í umræðuna um 15 metra versus 15 brúttótonn. Ég tek það nú fram að ég er ekki að gera því skóna að menn mundu fara út í 15x15 metra báta þó að þetta yrði gert svona en það þarf að hyggja að þessu öllu saman.

Ég skil út af fyrir sig og er að mörgu leyti sammála því að menn þurfa auðvitað að taka raunsætt á því þegar þróun er að verða af þessu tagi og menn mega ekki loka með einhverjum ómálefnalegum girðingum fyrir framþróun á sviði meðferðar hráefnis, vinnuaðstöðu, öryggis og búnaðar og það er engum til góðs að reyna að stöðva slíkt. Á hinn bóginn geta menn þurft að hafa sjónir á öðrum markmiðum eins og þeim að ekki verði þarna um óhóflega samþjöppun að ræða. Menn þurfa kannski líka upp að vissu marki að vera trúir upphafsmarkmiðunum sem voru lögð til grundvallar eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom hérna ágætlega inn á, þegar kerfið var sett af stað á sínum tíma og því var ætlað að vera í þessu hólfi fyrir útgerð minni fiskiskipanna ekki síst með hagsmuni minni sjávarbyggðanna í huga. Þannig hefur það þróast og vissulega mjög glæsilega á sumum stöðum eins og Bolungarvík er kannski einna nafntogast dæmi um þar sem mikill kraftur hefur færst í akkúrat þessa tegund útgerðar.

Um það hvernig við tökum á því ástandi sem núna er uppi þá treysti ég hv. nefnd vel fyrir því að skoða það og afla gagna um það, ráðuneytið mun að sjálfsögðu aðstoða við það, hver nákvæmlega staðan er þá í dag og hvert er útlitið fyrir að hún verði. Segjum að þetta mál fengi afgreiðslu hér eftir þrjár til fjórar vikur, hvers væri þá að vænta varðandi þá sem hafa í millitíðinni farið í að stækka báta sína. Ég tek það alveg sérstaklega fram að það er ekki markmiðið í fyrsta lagi með þessu að veikja krókaaflamarkskerfið og standa fyrir stórfelldum flutningi hæstu aflaheimilda úr því upp á við. Það er þaðan af síður ætlunin að einhverjir hagnist á slíku sérstaklega. Það hefur auðvitað verið verðmunur á veiðiheimildunum milli kerfa þó hann hafi minnkað á undanförnum árum. Auðvitað mætti líka skoða hvort aðrar leiðir væru kannski heppilegri í ljósi stöðunnar og áhættu sem kynni að verða tekin við að fara hreina leið frumvarpsins og leyfa mönnum heldur að færa veiðiheimildirnar upp á við. Í sjálfu sér er það líka leið til að taka á þessu en það er mikilvægt að ganga frá því, loka því og hafa reglurnar skýrar, hvort sem þær verða að viðhalda núverandi 15 brúttótonnatakmörkun eða að skoða aðra leið.

Varðandi það sem menn hafa nefnt um svæðaskiptingu og dagafjölda í strandveiðunum þá vil ég auðvitað bara segja að ég þekki vel til þeirrar umræðu og hef heyrt ýmis sjónarmið í þeim efnum. Ég bendi þó á að þegar það er skoðað hvernig mál hafa þróast þessi fjögur ár hefur það leitað meira jafnvægis en fyrr. Ég svaraði fyrirspurn um þetta mál frá hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur núna fyrir skömmu og þar koma fram mjög ítarlegar upplýsingar um þróunina þau fjögur ár sem strandveiðarnar hafa verið, þróun afla innan svæða og löndunarstaða og meðalafla á bát og hámarksafla og allt það. Það má lesa út úr því að þetta er þó frekar að leita jafnvægis en hitt. Það er líka rétt að horfast í augu við ákveðinn árstíðamun sem glöggt birtist í þessum tölum, að menn þurfa fleiri daga og gengur erfiðlegar að ná sínum hlut á norður- og austursvæðinu fyrri part ársins en betur seinni partinn o.s.frv.

Það er líka mikilvægt, og því vil ég halda til haga, að svæðaskiptingin í upphafi byggði á fullkomlega málefnalegum viðmiðunum sem lagðar voru til grundvallar svæðaafmörkuninni sem slíkri og magni innan hvers svæðis um sig. Það var horft til þeirra þátta sem ég tel að eðlilegast hafi verið að horfa til, þ.e. fjölda útgerðarstaða eða löndunarstaða gegnum tíðina eða undangengin ár til baka. Það var til dæmis horft til þess hvernig byggðakvóta hafði verið úthlutað sem segir auðvitað ákveðna sögu um stöðu þessara byggða. Eitt er mikilvægt og það er að rétturinn til strandveiða þessarar útgerðar yfir sumarmánuðina verður að tilheyra sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið. Kerfið verður að passa upp á að hann færist ekki einhvern veginn í burtu eða þjappist um of saman þannig að menn þurfa þá líka að leita leiða til að tryggja slíka hluti ef þeir fara út í breytingar á þessu.

Að sjálfsögðu getur þetta þurft að þróast og aðlagast eins og allt annað. Það er ekkert meitlað í stein í þeim efnum, hvorki magnið innan svæðanna né annað en ég hvet menn samt til að fara fram með gát áður en þeir ráðast í breytingar á því sem hefur þó svona í aðalatriðum að mínu mati gengið nokkuð vel upp, þótt ég þekki auðvitað þessa gagnrýni. Ef ekki eru gefnar væntingar um annað mun þetta leita jafnvægis að mínu mati. Þá er mikilvægt að hafa í huga að þessi réttur þarf að vera til staðar í einhverjum sanngjörnum mæli á jafnræðisgrundvelli hringinn í kringum landið.

Það má segja að svipað sé uppi þegar kemur að þeirri tillögu sem hér er lögð í frumvarpið um að prófa sig áfram með þá aðferð að menn geti valið tilskilinn lágmarksfjölda daga nokkuð undir því sem ætla má að verði til skiptanna á svæðinu í hverjum mánuði, vormánuðina eða kannski vor og haust sem er ein hugmynd sem ég tel koma vel til greina, og það megi síðan láta á það reyna hvernig það gefst, t.d. hvort verður þá eftirspurn eftir því að fá að velja og sækja í því fyrirkomulagi. Ég hef ekki verið talsmaður þess að menn gengju langt í þessa átt, þ.e. færu að festa daga fyrir fram í heild því þá byrjar þetta kerfi að taka á sig einkenni hluta sem við þekkjum mjög vel. Það byrjar þá að nálgast einhvers konar einstaklingsbundin réttindi innan hópsins. Það var ekki markmiðið með því að setja af stað strandveiðar að það byrjaði að myndast einhvers konar lítið fast daga- eða þaðan af síður kvótakerfi þannig að það er að ýmsu að hyggja í þessu öllu saman þegar betur er að gáð.

Ég hef ekki miklu við þetta að bæta, frú forseti, en þakka hér málefnalegar umræður og vænti góðs af því að atvinnuveganefnd taki málið nú í sínar hendur.