141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram umræðu sem frestað var í gær um landslénið .is. Ég var í andsvörum við hæstv. ráðherra í gær og beindi til hans ákveðnum spurningum. Svo ég fari aðeins yfir ferilinn í málinu hafði hæstv. ráðherra fyrst hugmyndir um að taka fyrirtækið jafnvel eignarnámi. Síðan var fallið frá því. Það var réttara sagt ein af þeim aðferðum sem komu til greina. Það var ekki lagt fram í frumvarpsformi svo það sé alveg á hreinu. Þegar frumvarpið var lagt fram á fyrri þingum var það með því fororði að um væri að ræða fimm ára starfsleyfi sem var að mínu mati algerlega óraunhæft og ósanngjarnt. Síðan er starfsleyfi viðkomandi fyrirtækis sem er með þetta svokallaða landslén, þ.e. ISNIC, orðið ótímabundið.

Margt hefur komið inn til viðbótar í þessu frumvarpi og ég mun fara betur yfir það á eftir. Það eru svo sem kunnugleg fingraför hjá hæstv. ríkisstjórn. Í upphafi var boðaður mun hærri lénaskattur þegar sambærilegt frumvarp var lagt fram og síðan er búið að minnka hann hægt og bítandi og hann er nú kominn í 3,5%. Það er mjög sérstakt. Eftir því sem kom fram á Vísi í gær er Ísland eina landið af þeim 50, sem var gerð könnun á sem halda utan um þetta, sem leggur á svokallaðan lénaskatt. Við vitum hvar sá skattur verður tekinn, auðvitað hjá þeim sem nota viðkomandi lén, þ.e. .is. Síðan kom líka fram á Vísi í gær að gjaldskrá fyrirtækisins hefði lækkað um 65% af raunvirði frá því á árinu 2000, þ.e. það er búið að skrá fleiri lén og þetta er mjög öruggt og gott og vel haldið utan um þetta og það veldur lækkuninni.

Þetta er það sem ég vil hafa í innganginum. Það er mjög merkilegt og ég mun á eftir koma að einstökum greinum sem ég er hugsi yfir. Þetta er 1. umr. um málið og væntanlega mun hv. umhverfis- og samgöngunefnd fara ítarlegar yfir það. Margar spurningar vakna sem maður svo sem áttar sig ekki á, sérstaklega sem snýr að hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar. Þessi skattur á að fara þangað inn og áætlað er að hann skili, ef ég man rétt eftir því sem kom fram í gær, 8–9 millj. kr. til Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá kem ég að því sem ég kom að í andsvörum við hæstv. ráðherra í gær. Hann náði ekki að svara öllu á þeim stutta tíma. Í fyrsta lagi spyr ég: Hvers vegna er farin sú leið að hafa sérstakan skatt þótt því megi halda fram, eins og hæstv. ríkisstjórn eða forsvarsmenn hennar gera oft, að það sé búið að lækka frá upprunalegum hugmyndum þannig að þetta eigi að vera orðið viðunandi? Það segir sig algjörlega sjálft að þetta lendir hjá þeim sem nota viðkomandi lén, .is, þ.e. hjá notendum. Það gefur augaleið.

Síðan er spurning með útskýringu á ákvæði 15. gr. sem gefur Póst- og fjarskiptastofnun heimild til að hafa eftirlit „eftir atvikum“, dálítið víðtækt orðalag og skilningur á því, með starfsemi rétthafa lénanna. Það er meðal þess sem hv. nefnd þarf að fara vandlega yfir. Síðan er annað sem ég skil ekki alveg og snýr að því að hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar er að setja á stofn sérstaka nefnd sem á að fara yfir og leysa deilur um lén. Það kom fram í gær í viðtalinu á Vísi við þann aðila sem stýrir þessu fyrirtæki að deilur um lén séu orðnar mjög fáar og hafi verið leystar með öðrum hætti. Það yrði þá gert í gegnum Neytendastofu sem starfar eftir ákveðnum lögum. Hver er þá þörfin fyrir það að setja af stað einhverja nefnd þarna inni? Þetta er eitt af því sem verður að svara. Það er kannski til að réttlæta það að taka þennan skatt og setja hann í þetta eftirlit inn á eftirlitsaðilana.

Síðan er ég hugsi yfir því sem ég kom aðeins inn á í andsvörum í gær, að takmarka erlenda aðila með skráningu á .is. Ég veit ekki hver tilgangurinn er. Það er merkileg nálgun. Ég held að það séu um 8 þús. lén skráð, ég vil ekki fullyrða það en mig minnir það. Ég skil ekki alveg af hverju. Síðan er þetta sem við þekkjum, sá aðili þarf að hafa einhver tengsl við landið áður en hann fær skráð lén. Hvað þýðir það í raun og veru? Er hægt að fá útskýringu á því? Það er til að mynda ekki tekið sterklega á því í greinargerðinni. Það er bara nefnt að viðkomandi þurfi að „hafa tengsl við“. Hvað þýðir það, er það ekki bara matskennt? Og til hvers, hver er tilgangurinn?

Eins þarf hann að vera orðinn lögráða. Menn geta ekki fengið lén 16, 17 eða 18 ára. Hver er tilgangurinn með því? Hverjar verða afleiðingarnar? Fara menn ekki bara einhverjar aðrar leiðir? Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara ítarlega yfir þetta.

Síðan finnst mér reglugerðarheimildirnar — það eru meira að segja reglugerðarheimildir til Póst- og fjarskiptastofnunar — allt of opnar. Það endar eins og venjulega, síðasta greinin er svona:

„Ráðherra skal heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, starfsemi skráningarstofu og almenna lénaumsýslu á Íslandi, þar með talið vegna alþjóðlegra skuldbindinga.“

Þetta er rosalega opin reglugerðarheimild. Ég er ekki að halda því fram að núverandi hæstv. ráðherra muni fara eitthvað óvarlega en við skulum ekki gleyma því að hæstv. ráðherrar koma og fara. Þetta er spurning um það hversu mikið framsal Alþingi færir yfir til framkvæmdarvaldsins. Mér finnst meira að segja stinga mjög í stúf það sem kemur fram í 6. gr. þar sem fjallað er um starfsleyfi. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Póst- og fjarskiptastofnun getur sett viðbótarskilyrði ef nauðsynlegt þykir. Slík skilyrði skal rökstyðja þegar þau eru sett og skulu þau vera skýr og við setningu þeirra skal gæta jafnræðis meðal leyfishafa.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja sérstakar kvaðir á skráningarstofu í samræmi við ákvæði laga þessara. Geta slíkar kvaðir meðal annars falið í sér kvöð um aðgang, gagnsæi, jafnræði og bókhaldslegan aðskilnað.

Breyta má skilyrðum starfsleyfis og kvöðum sem lagðar hafa verið á leyfishafa ef forsendur hafa breyst. Einnig má bæta við skilyrðum og kvöðum eða breyta til samræmis við breytingar á lögum og reglum settum samkvæmt þeim og þegar alþjóðasamningar gefa tilefni til slíks.“

Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta rosalega víðtækar heimildir. Það er ekki skýrt út í greinargerðinni hvað hér er nákvæmlega átt við þannig að sem leikmaður spyr ég mig þessarar spurningar: Hvað þýðir það að hafa svo opnar heimildir að menn geta breytt og gert hitt og þetta?

Ég ítreka það svo það valdi ekki neinum misskilningi að ég ætla engum að fara að misnota þessar heimildir en það er hins vegar ekkert sem tryggir að það verði ekki gert. Þetta er spurning um þá framsalsheimild sem Alþingi setur. 6. gr. sem snýr að starfsskilyrðum er að mínu viti mjög ítarleg. Hvað skyldi standa í c-lið þar? Ég hef ekki áður séð það í lögum, ég er reyndar ekki búinn að sitja lengi á Alþingi, bara þetta kjörtímabil. Þar segir, með leyfi forseta, „að ársreikningar leyfishafa séu gerðir í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga og birtir Póst- og fjarskiptastofnun í heild“.

Er ekki sjálfgefið að öll fyrirtæki, alveg sama við hvað þau starfa, hvort sem er í þessum geira eða einhverjum öðrum, fari eftir lögum um ársreikninga? Ég bara spyr: Þarf þetta að vera í lagatextanum? Ég átta mig ekki á því. (Innanrrh.: Hvað er að því?) Ja, hvað er að því, spyr hæstv. ráðherra, hvað er að því? Eigum við þá ekki að setja þetta alls staðar? Eru ekki skýr lög um það sem snýr að bókhaldi fyrirtækja og rekstri sem menn þurfa að fara eftir? Þarf að vera eitthvað sérstaklega í lögum um þetta fyrirtæki umfram önnur? Þetta er spurning sem verður að svara.

Síðan er eitt atriði sem hefur pirrað mig verulega, ég viðurkenni það, og það hefur áður komið fram í þessari umræðu. Ég skil ekki af hverju það er inni. Það getur vel verið að það sé einhver ástæða fyrir því en mér finnst það ekki. Ég hef vakið athygli á því og ég hef leitað og skoðað þetta sérstaklega hér, það er textinn í skýringunum og greinargerðinni með frumvarpinu þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Árið 2005 bárust samgönguráðuneytinu óformlegar kvartanir opinberra aðila og einstaklinga vegna þátta í starfsemi ISNIC, auk þess sem ráðherra var krafinn svara um starfsemina í fyrirspurnum á Alþingi.“

Ég man ekki eftir því að hafa séð ámóta texta í þeim frumvörpum sem ég hef lesið. Það getur vel verið að mér hafi yfirsést hann í einhverjum öðrum frumvörpum. Mér finnst eins konar aðdróttanir í þessum texta og þess vegna pirrar hann mig. Það má að minnsta kosti misskilja hann, skilja hann svona eins og ég er að segja. Við gætum verið að fjalla um lagasetningu sem snýr bara að hverju sem er, hvaða stofnun sem er, alveg sama hvað hún heitir. Hafa okkur ekki borist kvartanir vegna allra þeirra stofnana sem eru undir hæstv. innanríkisráðherra, t.d. Vegagerðarinnar? Ætti það þá að vera í greinargerð með frumvörpunum að kvartanir hefðu borist? Það er ekki skilgreint hverjar þær eru og það hafa ekki fengist svör við því þannig að þessi texti pirrar mig mjög mikið. Ég viðurkenni það fúslega og ég hafði miklar væntingar til þess að hann færi út, en því er ekki að heilsa. Því miður er hann inni.

Síðan vil ég enda á öðru. Það er mjög margt sem menn þurfa að fara yfir og ég treysti hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara yfir athugasemdir. Það eru komnar þrjár umsagnir um frumvarpið og þar á meðal tvær sem láta liggja að því í sambandi við 15. gr., sem ég vísaði til áðan, að það sé jafnvel verið að opna fyrir einhverja ritskoðun. Hæstv. ráðherra svaraði því í andsvörum að það væri ekki meiningin og ég ætla það engum.

Það er mikilvægt að skoða það að erlendir aðilar skuli þurfa að hafa tengsl við Ísland. Það þarf að útskýra það nánar þannig að þetta sé ekki svona opið áfram. Mér finnst þurfa að kveða á um að það sé algerlega skýrt hvað eru tengsl. Þau þurfa að vera komin á áður en menn fá lénið, menn þurfa að hafa haft tengsl við landið. Það er mjög matskennt hjá hverjum og einum, alveg sama hvort hann er hv. alþingismaður, hæstv. ráðherra eða annar, hvernig menn leggja mat á það.

Síðan er gerð sú krafa til rétthafa að hann sé lögráða eða lögaðili. Hv. nefnd þarf að fara yfir það. Hvað þýðir það ef fólk getur ekki skráð lén sín nema það sé orðið 18 ára? Eru margir undir 18 ára með skráð lén? Ég þekki það ekki. Væntanlega eru það einhverjir. Hvaða afleiðingar mundi það hafa ef það væri ekki leyft? Munu menn þá fara aðrar leiðir og láta einhverja aðra skrá lénið? Þetta er meðal þeirra fjölmörgu atriða sem verður að fara yfir í meðförum nefndarinnar. Ég treysti að það verði gert, að sjálfsögðu.