141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil þó vekja athygli á því í þessari umræðu, sem ég nefndi hér áðan, að frá árinu 2000 hefur gjaldið vegna lénaskráningar lækkað um 65% að raungildi. Ég ætla að leyfa mér að hafa efasemdir um þá lækkun ef fyrirtækið hefði verið ríkisrekið. Ég ætla að leyfa mér að hafa þær efasemdir. Ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar heldur leyfa mér að hafa efasemdir. Það er ekki reynslan af ríkisreknu fyrirtæki.

Hæstv. ráðherra kemur hér inn á það sem snýr að því að fyrirtækið var einkavætt. Við breytum því ekki, alveg sama hvaða skoðun við höfum á því. Við erum bara stödd hér í dag og þurfum ekkert að taka djúpa umræður um það sem var, við breytum því ekki héðan í frá.

Hæstv. ráðherra kom líka inn á það í ræðu sinni að þeir sem hafa byggt upp þetta fyrirtæki, þeir einstaklingar, hafi staðið sig einstaklega vel. Þeir sem hafa þróað þetta frá upphafi eiga mikið lof skilið fyrir það og hafa auðvitað staðið vel að rekstri þessa fyrirtækis. Það er mikilvægt að það komi líka fram. Við deilum ekkert um það.

Ég verð að viðurkenna að það væri æskilegra fyrir hæstv. ráðherra að gera þessa kröfu til margra annarra stofnana. Það er ekki alveg samasemmerki á milli þess að vera með ríkisfyrirtæki og þess að það sé endilega hagkvæmara eða betra fyrir hagsmuni neytenda eða íbúa landsins.

Mig langar að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra ef hann hefur gögnin við höndina, ég geri ekki kröfu um slíkar útfærslur í þessari umræðu, því að mig langar að fá útskýringar á því hvort viðkomandi þurfi að vera lögráða eða lögaðili áður en hann skráir sig fyrir léni. Ég þekki það ekki, ég veit ekki hvaða annmarkar eru á því en mér finnst það frekar bratt. Eins væri gott ef hæstv. ráðherra gæti komið aðeins inn á tengslin við landið áður en maður skráir sig fyrir léni. Hvert er markmiðið með því í raun og veru?