141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lögráða, það er vegna þess að þá er viðkomandi ábyrgur eigin gjörða. Hvers vegna tengsl við landið? Vegna þess að þetta er Íslandslénið. Þetta er lénið sem tengist landi og þjóð. Er eitthvað óeðlilegt við það að við viljum að einhver tengsl séu þarna á milli? Þetta er ekki eins og hver önnur markaðsvara.

Ég geri mér grein fyrir því að fulltrúum þessa fyrirtækis, sem hugsa um hag fyrirtækisins og vilja ekki hafa neinar slíkar hömlur heldur bara víkka út landamæri þess og fá sem flesta kúnna, er þetta á móti skapi en við sem erum að hugsa um Íslandslénið og samfélagslega hagsmuni viljum setja þessar reglur.

Hv. þingmaður segist ekki sjá ríkisstofnanir ganga í gegnum það sem þetta fyrirtæki hefur gert með tilliti til gjaldtöku og útgjalda. Gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því að í kjölfar hrunsins, sem varð þess valdandi að gjaldstofnar ríkis og sveitarfélaga hrundu, höfum við skorið niður í útgjöldum til einstakra stofnana á bilinu 20–25% að raungildi? Það er það sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum, 20–25% að raungildi höfum við verið að draga úr útgjöldum til almennra ríkisstofnana. Þetta hefur hent samfélag okkar.

Eigum við ekki að sameinast um það að horfa á þessi mál með tilliti til og hliðsjón af hagsmunum íslensks samfélags? Það er fínt að menn komi hingað upp til að verja hagsmuni þessa fyrirtækis, það er ágætt, en menn verða líka að sýna samfélagslega ábyrgð í málflutningi sínum og horfa til samfélagslegra hagsmuna þó að þeir vilji reka hagsmuni fyrirtækisins sérstaklega. Ég hef reynt að haga málum þannig að lagaumgjörðin tryggi góða rekstrarstöðu þessa fyrirtækis og að við séum sanngjörn í öllu sem það snertir því að ég vil (Forseti hringir.) einlæglega að þessu fyrirtæki vegni vel en ekki á kostnað samfélagslegra hagsmuna.