141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan að ég teldi að hæstv. ráðherra hefði mismælt sig, en kannski er niðurstaðan sú að ég hafi bara misskilið hæstv. ráðherra. Eins og ég sagði þá hefur hæstv. ráðherra yfirleitt verið málefnalegur í sínu máli, þau skipti sem ég hef átt orðaskipti við hann og hlustað á hann.

Hæstv. ráðherra segir að þær athugasemdir og spurningar sem ég hef borið upp og lúta að meðferð þessa máls hafi kannski verið þær athugasemdir sem hafa komið fram af hálfu fyrirtækisins. Það má vera rétt, vegna þess að þegar við skoðum hvernig þetta er í raun og veru þá komu auðvitað athugasemdirnar þaðan þegar þetta mál kom fram. Athugasemdirnar voru við lagasetninguna sem slíka því engin lög hafa verið sett um þetta og menn voru auðvitað varaðir við því hvaða áhrif það getur haft.

Þess vegna er auðvitað mikilvægt að menn fari bara yfir það. Ég er ekki búinn að komast að niðurstöðu. Ég var ekki með neinar fullyrðingar hér áðan um að þetta væri með þessum hætti eða öðrum. Ég var bara að kalla eftir upplýsingum, engu öðru. Ég tók það sérstaklega fram í byrjun ræðu minnar. Hæstv. ráðherra var nú ekki kominn, var hér bara til hliðar og hefur kannski ekki heyrt að ég fagnaði þeirri breytingu sem hæstv. ráðherra hafði gert. Annars vegar á tímabundnu starfsleyfi eða fimm ára starfsleyfi, ég gagnrýndi það mjög.

Í greinargerðinni gerði ég alvarlegar athugasemdir við að í frumvarpinu komi fram að kvartað hefði verið undan viðkomandi fyrirtæki, ég er ósáttur við það og hefði viljað sá það fara út. Ég hef ekki séð það í lagatexta áður og finnst ekki æskilegt að það sé þar inni. Annars hafa athugasemdir mínar í þessari umræðu eingöngu verið að kalla eftir bæði þeim markmiðum sem verið er að setja fram og einnig skýringu á hvers vegna hlutirnir eru settir fram með þeim hætti. Ég hef ekki verið að kveða upp úr um nokkurn skapaðan hlut, nema okkur greinir jú á um, sem og oft áður, hvort skatturinn sé hóflegur eða ekki. Það er svo sem ekkert nýtt, en umræðan hefur verið með þeim hætti. Niðurstaðan er kannski sú að þessi hörðu viðbrögð mín hér áðan voru þau að ég hafi kannski misskilið hæstv. ráðherrann en hann ekki mismælt sig.