141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framvinda ESB-viðræðna.

[10:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og hæstv. forsætisráðherra er vafalaust kunnugt þá hefur nokkuð verið spurt að því í þinginu síðustu daga hver raunveruleg merking þeirrar yfirlýsingar er sem ríkisstjórnin sendi frá sér á mánudag eftir sérstakan aukafund í ríkisstjórninni varðandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hæstv. forsætisráðherra kom inn í umræðuna í fréttum útvarpsins á mánudaginn og skýrði tildrög málsins með þeim hætti að þarna væri um að ræða ákveðið útspil, sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en svo að sé til þess fallið að auðvelda þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að svæfa eða kæfa tillögu sem uppi hefur verið í utanríkismálanefnd Alþingis um að gera hlé á aðildarviðræðum fram yfir kosningar.

Nú vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það er réttur skilningur hjá mér. Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé réttur skilningur hjá mér á ummælum hennar í fréttum á mánudaginn að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar breyti svo sem ekki neinu af því að það hefði hvort sem er ekkert gerst á tímanum fram að kosningum sem máli skiptir í aðildarviðræðunum.