141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framvinda ESB-viðræðna.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður beinir til mín. Hér var einfaldlega um að ræða samkomulag sem flokkarnir gerðu og hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um varðandi framvinduna í Evrópuferlinu fram yfir kosningar. Ég held að þetta hafi verið góð niðurstaða. Það er alveg ljóst að ferlið mun halda áfram eins og því hefur verið lýst í samkomulaginu aftur og aftur í þessum ræðustól. Ég tel líklegt að þróunin hefði verið sú sama þó að ekkert samkomulag hefði verið gert. Það hefur verið rækilega útskýrt hér m.a. af hæstv. utanríkisráðherra.

Það er alveg ljóst að sú ákvörðun sem Alþingi tók og samþykkti árið 2009 heldur algerlega gildi sínu þar til það breytir henni, sem ég á ekki von á að verði gert. Þá þarf að taka þá ályktun upp aftur. Hér er einfaldlega um það að ræða að ekki verður frekari vinna í þeim fjórum köflum sem enn eru ófrágengnir og óopnaðir sem varða sjávarútvegsmál og mál honum tengdum og landbúnaðarmál. En að öðru leyti heldur vinna áfram í þeim 18 köflum sem þegar hafa verið opnaðir. Það er ekkert flókið mál þótt menn vilji flækja það og tortryggja og sjái samsæri í hverju horni, eins og þeir hafa reyndar gert allt kjörtímabilið í stórum málum. Verið er að draga upp hina og þessa mynd af ríkisstjórninni, að hún hafi ekki meiri hluta, sé minnihlutastjórn o.s.frv., en staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur komið hverju málinu á fætur öðru fram þrátt fyrir hrakspár stjórnarandstöðunnar.