141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framvinda ESB-viðræðna.

[10:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra getur vafalaust nefnt ýmsar skýringar á því að ESB-aðildarferlið hefur ekki náð fram að ganga á þeim hraða sem ríkisstjórnin gerði ráð fyrir í upphafi. En ekki getur hæstv. forsætisráðherra kennt stjórnarandstöðunni um það, það hefur ekki verið á valdi stjórnarandstöðunnar að hafa nein áhrif á þá atburðarás.

Varðandi málið sem hér er til umræðu er ekki hægt að skilja orð hæstv. forsætisráðherra öðruvísi en svo að yfirlýsingin sem gefin var út, og vitna ég þá til viðtals við hæstv. forsætisráðherra í Ríkisútvarpinu á mánudaginn, hafi verið gerð á grundvelli samkomulags milli stjórnarflokkanna til að gera þingmönnum og ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs auðveldara að svæfa eða kæfa tillöguna sem hefur verið á sveimi í utanríkismálanefnd. Ég veit reyndar ekki hvort hún tekin var fyrir á fundi þar í morgun, ég hef ekki fengið upplýsingar um það. (Forseti hringir.) Er það rétt, hæstv. forsætisráðherra?