141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

samstarf innan ríkisstjórnarinnar.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mikið um hvort hér hafi verið hótað stjórnarslitum í hinu og þessu. Það hafa nú gengið spádómar allt kjörtímabilið hjá stjórnarandstöðunni um slit þessarar ríkisstjórnar; minni hluti í ákveðnum málum o.s.frv. og fjölbreyttar samsæriskenningar um hitt og þetta. Þær halda áfram og munu sjálfsagt halda áfram allt kjörtímabilið og við lifum bara með því. Staðreyndirnar tala sínu máli, ríkisstjórnin lifir góðu lífi og stærri mál renna fram eitt af öðru.

Ég sagði, hv. þingmaður, að líklegt væri að sú þróun sem orðið hefur í samkomulaginu hefði gengið fram eins og þar er lýst þótt ekkert samkomulag hefði verið gert og fyrir því hafa verið færð rök, m.a. af hæstv. utanríkisráðherra. Þeir 16 kaflar sem unnið er með hafa farið í gegnum ráðherranefnd um Evrópumál og utanríkismálanefnd og gengu á milli embættismanna þannig að vinna við þá hefði væntanlega haldið áfram.

Ég held að allir séu sammála um að sjávarútvegsmálin hefðu aldrei náð fram að ganga og að ekki hefðu verið opnaðir kaflar á þessu kjörtímabili, enda ættu ýmsir að fagna því, aðrir, sem taka hugsanlega við völdum, hafa þá tækifæri til að hafa áhrif á samningsniðurstöðuna. Allt hefur allt gengið með eðlilegum hætti. Og hvort fara hefði átt fram atkvæðagreiðsla í upphafi þessa kjörtímabils þá var einfaldlega samkomulag milli flokkanna, sem hv. þingmaður getur lesið um í stjórnarsáttmálanum, um það hvernig fara skyldi með Evrópumálið. Það liggur alveg fyrir og þeirri samvinnu eins og henni þar er lýst verður haldið áfram út kjörtímabilið. (Forseti hringir.) Hvað tekur við eftir kjörtímabilið getur enginn svarað, hvorki hv. þingmaður né ég.