141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

samstarf innan ríkisstjórnarinnar.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Nákvæmlega þetta er haft eftir hæstv. ráðherra í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Nei, við settum þrýsting á málið af okkar hálfu að þeir tryggðu það að slík tillaga sem væri inni í þinginu fengi ekki framgang.“

Það er tillaga sem sagt um að fresta aðildarviðræðunum. Það þýðir á mannamáli að Samfylkingin, væntanlega hæstv. forsætisráðherra, hótaði sem sé Vinstri grænum stjórnarslitum ef sú tillaga sem væri í utanríkismálanefnd næði fram að ganga. Það leiddi til þess að Vinstri grænir skiptu um mann í nefndinni til að tillagan næði örugglega ekki fram að ganga. Síðan kemur fram einhver undarleg yfirlýsing um að hægja beri á viðræðum.

Hæstv. forsætisráðherra hefur nú lýst því yfir að sú yfirlýsing hafi ekkert gildi því að það sé engin breyting þar á. Það vissu allir að hægt yrði á viðræðum. Hvað fengu þá Vinstri grænir út úr þessu? Jú, mannaskipti í nefndum.

Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki svarað því sem hæstv. innanríkisráðherra sagði í ræðustól. Hæstv. innanríkisráðherra fullyrðir að í stjórnarmyndunarviðræðunum við Samfylkinguna hafi Samfylkingin hafnað því að spyrja þjóðina hvort fara ætti í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ráðherrann sagði það í þessum ræðustól. Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna var því hafnað?