141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

samstarf innan ríkisstjórnarinnar.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Stjórnarsáttmálinn talar bara sínu máli um það hvernig stjórnarflokkarnir gengu frá aðildarferlinu að Evrópusambandinu þegar þeir hófu þetta samstarf. Það er ekkert meira um það að segja. (Gripið fram í: Er þetta rétt ?) Það er það sem liggur fyrir og það er það sem skiptir máli.

Auðvitað er ljóst að ef tillagan í utanríkismálanefnd, þar sem einn stjórnarliði myndaði meiri hluta með stjórnarandstöðunni um að stöðva þetta ferli, hefði náð fram að ganga hefði þessu samstarfi verið sjálfhætt. Það hefur alltaf legið fyrir og á ekki að vera nein ný frétt fyrir hv. þingmenn. Þá hefði verið brotinn stjórnarsáttmálinn sem kvað á um að þessu ferli skyldi ljúka með samningum og þjóðaratkvæðagreiðslu. Það liggur alveg í augum uppi að þá hefði verið sjálfhætt.