141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[10:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra svara út og suður. Ég nálgast þetta mál svona: Hér er sjálf stjórnarskráin og það er ekki hægt að kasta til höndunum í vinnubrögðum við endurskoðun hennar. Forsætisráðherra virðist nálgast málið þannig að það eina sem skipti máli sé að það klárist, bara ljúka verkefninu. Öll áherslan er á ferlið sjálft en ekki innihald málsins. Það þarf að fá skýrar línur í það hvort forsætisráðherra er enn á þeim stað sem hún lýsti hér fyrir örfáum sólarhringum, að það væri eitt af forgangsmálum þingsins að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Það tel ég fullkomlega óraunhæft. Ég vil bara hafa sagt það hér. Við höfum einmitt sagt það við forustu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, það er fullkomlega óraunhæft. Forsætisráðherrann heldur hins vegar þannig á málinu, leiðtogi stjórnarflokkanna á þingi, að nefndir þingsins eru settar undir þann þrýsting að þær eigi að skila af sér álitum. Nú er talað um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætli eftir örfáa sólarhringa (Forseti hringir.) að láta málið aftur frá sér inn í þingið, væntanlega eftir að hafa skoðað athugasemdir einstakra nefnda í einn til tvo sólarhringa. Þetta eru vinnubrögð, þetta er verklagið, þetta er verkstjórnin, (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra, sem er alls ekki hægt að sætta sig við.