141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

afstaða stjórnarþingmanna til ESB.

[10:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá forsætisráðherra, og hún viðurkennir það, að málið fór ekki hér í gegn á grundvelli styrks stjórnarflokkanna og er þess vegna ekki ríkisstjórnarmál. Þess vegna kemur það á óvart þegar hæstv. forsætisráðherra birtist svo í fréttum og segir að ef tillaga um að gert verði hlé á viðræðunum og þær ekki hafnar að nýju fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu fari inn til þingsins muni forsætisráðherra beita sér gegn því að nefndir og meiri hluti þingsins fái að segja sitt hvað það mál varðar.

Ég ítreka að í þeirri greinargerð sem fylgdi þessari tillögu í upphafi var kveðið skýrt á um að ríkisstjórnin yrði að fylgja alveg nákvæmlega þeim reglum sem settar yrðu, bæði um framgang málsins og efnisatriði. Ef yrði að breyta frá því sem þar var kveðið á um að var grundvallaratriði — (Gripið fram í: Það var gert.) og eitt af grundvallaratriðunum er (Forseti hringir.) framgangsmátinn. Ég tel, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra sé að beita þingið ofríki (Forseti hringir.) gagnvart þessari samþykkt. Hún ræður þessu ekki ein, það er þingið sem ræður (Forseti hringir.) og það að hóta stjórnarslitum ef mál fær að koma til þingsins finnst mér alveg með ólíkindum. Það segir kannski mest um hæstv. forsætisráðherra.