141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

leyfi til olíuleitar og vinnslu.

[11:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Nei, auðvitað liggur það ekki fyrir að farið verði í vinnslu eftir þær rannsóknir sem verið er að fara í gang með. Það liggur auðvitað fyrir, og ég vænti þess að hv. þingmaður sé sammála mér um það, að það sé lykilforsenda að uppfylla þurfi öll skilyrði. Það liggur algerlega ljóst fyrir að þetta fer saman. En ég held að hv. þingmaður og þingheimur allur raunar þurfi líka að taka afstöðu til þess að staða Íslands kann að breytast verði Ísland olíuríki. Er það ekki eitt af því sem okkur finnst mikilvægast í alþjóðasamhenginu að við séum þjóð sem nýti endurnýjanlegra orkugjafa og hreina orkugjafa? (Gripið fram í.) Er það ekki nákvæmlega það sem við viljum? Viljum við vera olíuþjóð og breyta ímynd okkar á alþjóðavettvangi sem því nemur? Mér finnst það vera umræða sem virðulegir þingmenn Sjálfstæðisflokksins mættu alveg taka því að hún er gagnrýnin og mikilvæg.