141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli forseta á því að hér kom fram, að mínu mati, mjög alvarlegur hlutur áðan þegar hæstv. forsætisráðherra viðurkenndi að hafa í raun beitt hótunum til að koma í veg fyrir að þingvilji kæmi fram í þingsal. Það var alveg ljóst í svörum við hv. þm. Jón Bjarnason, þegar rætt var um tillögu er hann stóð að í utanríkismálanefnd ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að sú tillaga mátti ekki koma hingað í þingsal. Forsætisráðherra sagði það hér í raun og viðurkenndi að hafa beitt hótunum til að koma í veg fyrir að slíkt næði fram, að þingviljinn kæmi fram hér í þingsal.

Niðurstaðan varð sú að út var skipt manni í utanríkismálanefnd til að koma í veg fyrir að þetta yrði gert. Þetta finnst mér mjög óeðlilegt og ég óska þess að forseti fari yfir málið, kanni hvort þetta geti verið eðlilegt, hvort fordæmi séu fyrir þessu og ræði það við framkvæmdarvaldið hvort framkvæmdarvaldið geti stýrt þinginu með þessum hætti.