141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, full ástæða er fyrir hæstv. forseta að skoða þetta mál. Það liggur ljóst fyrir að hæstv. forsætisráðherra beitti miklum hótunum sumarið 2009 til að ná þessu í gegnum þingið þegar greiða átti atkvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hæstv. forsætisráðherra kallaði hvern stjórnarþingmann Vinstri grænna á fætur öðrum inn á teppið til sín og gerði þeim grein fyrir því að styddu þeir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið væri stjórnarsamstarfið búið, fyrsta vinstri stjórnin væri sprungin.

Nú kemur hæstv. utanríkisráðherra og tekur undir með hæstv. forsætisráðherra hvað þetta snertir og fjallar um að sambærileg tillaga hafi komið fram í fyrra. Ástæða þess að margir þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna samþykktu ekki þær tillögur var sú að fram yrði að koma sjálfstæð tillaga, sambærileg þeirri sem er í utanríkismálanefnd. En nú er búið að láta Vinstri græna (Forseti hringir.) ganga í gegnum svipugöng hæstv. forsætisráðherra enn á ný, sömu göngin og gengið var í gegnum 2009. Með þessu (Forseti hringir.) á að koma í veg fyrir að Alþingi fái að taka afstöðu (Forseti hringir.) til þeirrar þingsályktunartillögu sem liggur í utanríkismálanefnd. Þetta er grafalvarlegt (Forseti hringir.) og ég vil beina því til forseta að skoða þetta mál.