141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það ekkert annað en hótun, það er ekkert hægt að túlka þessi orð öðruvísi þegar sagt er að tillagan muni valda stjórnarslitum. Mönnum er stillt upp við vegg. Auðvitað er það ekkert annað en hótun, það þarf ekkert að ræða það frekar.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um það áðan þegar verið var að ræða stjórnarskrármálið að sjálfstæði þingsins væri í forgrunni hjá ríkisstjórninni, sjálfstæð vinnubrögð þingsins, og að bilið á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins hefði aukist. Það hefði dregið þar í sundur og að framkvæmdarvaldið hefði ekki puttana í málum. En hvað er að gerast í þessu máli, virðulegi forseti? Þetta er auðvitað háalvarlegt mál. Hér er gróf aðför að lýðræðinu í þinginu. Það er hér gróf aðför að sjálfstæði þingsins þegar mál er í utanríkismálanefnd og menn eru bara reknir (Forseti hringir.) þaðan burtu, fá brottfararpassann þegar ríkisstjórninni líkar ekki hvert málin stefna. (Forseti hringir.) Verið er að taka ákveðið vald úr höndum þingsins til þess að fjalla um þetta mál. (Forseti hringir.) Það er auðvitað grafalvarlegt mál, virðulegi forseti, og verður að taka slík vinnubrögð fyrir í forsætisnefnd.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann, hann er ein mínúta undir þessum lið.)