141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ítreka og beini því til hæstv. forseta að hótanir hæstv. forsætisráðherra verði teknar til skoðunar. Það liggur ljóst fyrir að hæstv. forsætisráðherra beitti gríðarlegum hótunum sumarið 2009. Það er ekkert launungarmál og eru engar deilur um að þær hafi átt sér stað á sínum tíma, m.a. hótanir um stjórnarslit.

Nú eru þessar sömu hótanir uppi í fjölmiðlum þar sem hæstv. forsætisráðherra segir, og sagði það líka áðan, að það hefði leitt til stjórnarslita ef tillagan hefði komið fram og náð fram að ganga. Ég held að það sé full ástæða til þess að forsætisnefnd skoði málið og skoði hótanir forsætisráðherra og framkvæmdarvaldsins gegn Alþingi þegar komin er fram tillaga um málið. Ég vil ítreka það við frú forseta að það er sérstaklega alvarlegt í ljósi þeirrar staðreyndar að mikill meiri hluti þjóðarinnar (Forseti hringir.) er andsnúinn ESB-aðild og mikill meiri hluti þjóðarinnar vill hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Það er reyndar önnur skoðun en hæstv. forsætisráðherra og það skýrir kannski ástæður þessara hótana.